10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Björn Hallsson:

Það er búið að ræða þetta mál nokkuð mikið, og kann ske óþarflega mikið, eins og oft vill brenna við hjer í háttv. deild. (Einhver: Heyr!). Jeg ætla því að reyna að vera stuttorður. Það hefir verið talað mikið um útflutningsgjaldsfrumv., sem felt var hjer í deildinni fyrir skömmu, og menn hafa verið að bera saman samkvæmina í því, að fella það og koma svo fram með þetta. Við, sem að því stóðum að drepa hitt frumv., álitum, að sá tollur væri bygður á röngum grundvelli, og sáum því ekki annað ráð en að fella það, þar sem við gátum ekki unað við tollinn í því formi. Það var bygt á því, að jafnhár tollur yrði lagður á, hvort sem varan væri í háu eða lágu verði, jafn háa auratal á pund. Og þar sem farið var fram á, alt að einnar miljónar kr. tekjuauka með þessum tolli, þá var það fyrirsjáanlegt, að þetta yrði þungur baggi. Jeg gæti fyrir mitt leyti gengið inn á einhvern útflutningstoll á skynsamlegum grundvelli, því að það er mjög athugavert, að skilja svo við þetta þing, að ekkert sje gjört til þess að auka tekjur landssjóðs, eins og ástandið er nú í heiminum. Við höfum margir litið svo á, að þar sem fyrirsjáanlegt er, að allmikill tekjuhalli verður á fjárlögunum, og þegar þess er gætt jafnhliða, hve valta tekjustofna við höfum til að byggja á, sem sje tollana, þá muni verða að leggja einhvern toll á útfluttar vörur, til þess að jafna tekjuhallann og til þess að hafa einhvern bakhjarl, ef í harðbakka slær. En hins vegar höfum við líka litið svo á, að þótt nú yrði gengið inn á einhvern útflutningstoll, þá ætti hann ekki að vera til frambúðar, heldur að eins að gilda til næsta þings. Benda má og á það, að sá tollur, sem hjer er um að ræða, er eingöngu miðaður við gróða frá hæsta verði, sem áður hefir verið. Það er því ekki ætlast til, að tollur sje greiddur af öðru en þeim gróða, sem verður á vörunum vegna stríðsins. Af því má greinilega sjá, að hjer er um glögga stefnubreytingu að gjöra frá fyrra frumv., og er því engin ástæða til að lá það, að þetta frumv. er komið fram.

Það hafa orðið töluverðar orðahnippingar hjer í deildinni út af þessu frumvarpi. Háttv. þm. Dal. (B. J.) byrjaði á því að segja, að það væri verið að smeygja tolli inn á þjóðina. Það er rjett að því leyti, að við höfum ekki haft tækifæri til að ræða um það við þjóðina, hvort hún vilji láta leggja útflutningsgjald á, eða ekki. En í sjálfu sjer er þessi skattur bygður á svo rjettum forsendum, ef nokkurn toll á að leggja á annað borð, að engin ástæða er til að ætla að landslýðurinn risi upp á móti honum. Enn fremur sagði hann, að úr því að sömu mennirnir, sem hefðu drepið frumvarpið um daginn, væru nú með þessu frumv., þá hefði þeim snúist hugur. Jeg er honum ekki sammála um það. Hjer er um tvent ólíkt að ræða, því að það hefir algjörlega verið skift um grundvöll. Annars skil jeg ekki fjármálapólitík háttv. þm. Dal. (B. J.). Hann er með nálega öllum útgjaldaliðum, en vill ekki auka tekjurnar, nema með frv. sínu um dýrtíðarskatt af tekjum, sem er óframkvæmanlegt, í það minsta á stuttum tíma.

Þá sagði háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), að það væri hlægilegt fyrir okkur, sem hefðum drepið frumv. um daginn, að fara nú að samþykkja þetta frumv. Það er ekki ástæða fyrir hann að vera að reyna að gjöra okkur hlægilega fyrir þetta, enda mun það ekki takast, því að við álítum annan grundvöllinn óhafandi, en hinn vel viðunandi, til þess að reyna að stuðla að því, að fjárlögin verði ekki afgreidd með afskaplega miklum tekjuhalla. Eins og tekið hefir verið tekið fram, er þetta vegur til hjálpar, ef stjórnin hefði ekki fje til að byggja, á framkvæmdir sínar, svo sem vörukaup og afföll á þeim, vegna geymslu, því að lítið getur stjórn og Velferðarnefnd gjört með tómum tekjuhalla, þótt háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) geti ef til vill látið sjer það nægja, af því hann er ná ekki í ráðherrasæti.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) leit svo á. að við hefðum verið að biðja fyrirgefningar á framferði okkar; fyrir að fella frumv. um útflutningsgjald. Þessu mótmæli jeg algjörlega. Við höfum að eins lýst yfir því, að við hefðum ekki vantraust á Velferðarnefndinni, og við hefðum ekki felt frumv. til þess að móðga hana. Eins sagði sami háttv. þingmaður, að Velferðarnefndin hefði gengið milli þingm., til þess að afla sjer fylgis. Þetta get jeg ekki kannast við. Að minsta kosti hefi jeg ekki orðið var við það. Það getur verið, að einhver hafi knjekropið hv. þm. og beðið hann um fylgi, þótt mjer þyki það í rauninni næsta ótrúlegt, eftir því sem jeg þekki mennina, sem hlut eiga að máli. Enn fremur sagði hann, að Velferðarnefndin væri orðin hápólitísk. Það get jeg ekki sjeð að sje rjett.

En hitt er skiljanlegt, eina og kom fram á þinginu í fyrra, að sá stjórn, er þá sat að völdum og hafði Velferðarnefnd sjer til aðstoðar, milli þinga, var ekki ánægð með að hafa meiri hluta hennar á móti sjer, að þannig sje það einnig með núverandi stjórn. Og jeg man svo langt, að Sjálfstæðisflokkurinn setti þá á oddinn, að meiri hluti nefndarinnar væri þá með stjórninni. Þess vegna finst mjer það ekki sitja vel á stjórnarandstæðingum nú að brizla um það, þó að núverandi stjórn liti líkt á þetta.

Þá var það, að sami háttv. þingmaður sagði, að bændur kæmu undarlega fram, með því að ljá þessu frumvarpi fylgi sitt, því með því væri komið inn á þá braut, að leggja á áframhaldandi útflutningstoll.

Jeg geng ekki út frá því, að þessi tollur verði áframhaldandi, heldur einungis til bráðabirgða. Enda hverfur hann af sjálfu sjer, ef vörurnar lækka í verði, t. d. vegna þess, að stríðið hættir. En jeg býst hins vegar við því, að á næsta þingi verði tolla- og skattalöggjöfin tekin til rækilegrar og róttækrar yfirvegunar. Þessi tollur, sem hjer ræðir um, er því að eins til þess, að bæta úr brýnni nauðsyn í svip.

Þá sagði sami hv. þingm. (G .E.), að frumvarpið væri hlægilegt, af því að þær tekjur, er það ætti að veita landssjóði, væru sama sem engar. En eftir upplýsingum háttv. flutningsmanns (P. J.) má ætla, að tekjurnar verði um 370 þús. kr. á ári, sem auðvitað yrði mikið minni þetta yfirstandandi ár, af því að nú þegar eru allmiklar vörur fluttar úr landi, sem því ekki er hægt að leggja toll á. En á næsta ári færu tekjurnar, er frumv. veitir, eftir því ástandi öllu, er þá verður, — geta horfið, ef vörurnar falla ofan í tiltekið verð, en yrðu talsverðar, ef gott verð helst áfram. Það er því ekki hægt að segja annað, en að nokkurt gagn muni verða að þessum tolli, og að hann komi ekki hart niður.

Jeg skal svo ekki segja fleira um þetta.