31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

109. mál, skipun dýralækna

Framsögum. minni hl. (Guðm. Hannesson):

Jeg hefi oft heyrt það sagt, að þeim málum gengi greiðast hjer á þingi, sem þingmenn hefðu minst vit á (Sigurður Sigurðsson: Var það svo um málið, sem nú var verið að samþykkja?). Það skal jeg ekkert um segja.

Jeg skal að eins leyfa mjer að minnast á nokkur atriði úr ræðu háttv. framsm. meiri hlutans (B. J.) við síðustu umr., og mun jeg fara fljótt yfir sögu. Hann kvaðst vænta þess, að dýralæknarnir gjörðu uppgötvanir í sinni grein, við víkjandi ýmsum farsóttum í kvikfjenaði, sem, eins og allir vita, valda landinu stórtjóni. Jeg veit ekki, hvort jeg get gjört mönnum það skiljanlegt, hve ólíklegt þetta er. En jeg vænti, að jeg geti kann ske gjört háttv. framsögum. meiri hlutans það skiljanlegt, að þótt hann hafi próf frá Kaupmannahafnarháskóla í latínu og grísku, þá er ekki víst, að hann geti gjört neinar málfræðilegar uppgötvanir bókarlaus uppi í sveit. Er það þó ólíku hægara, heldur en að gjöra uppgötvanir í læknisfræði, sjerstaklega um næmar sóttir, sem eru flestum öðrum vísindagreinum margbrotnari. Þar verður að feta sig áfram með tilraunum, sem eru mjög erfiðar viðfangs. Það er engum almennum lækni eða dýralækni fært að gjöra nýjar uppgötvanir í þessari grein, heldur að eins þeim mönnum, sem gefa sig alla við rannsóknum á þessu efni, og hafa öll áhöld, er þarf til þeirra. Þegar svo standa sakir, er það engin minkun fyrir Íslendinga, þótt jeg segi, að slíkar uppgötvanir verði ekki gjörðar, meðan svo hagar til, að öll skilyrði vanta, bæði sjerþekkingu og áhöld öll. Hitt dettur engum í hug að segja, að Íslendingar sjeu síður færir til að gjöra uppgötvanir, heldur en aðrar þjóðir, ef þeir hafa til þess nauðsynleg tæki og annað það, sem til þess útheimtist. Það var ekkert annað en reykur út í loftið, sem meiri hlutinn sagði um minni hlutann síðast.

Þá var annað atriðið, að dýralæknar í fjórðungunum gætu haft eftirlit með kjötútflutningi. Austfirðingum sagði hann að ekki myndi erfitt að senda dýralækni á bát milli fjarðanna, til að skoða kjöt. Jeg þarf ekki að útlista það, hvílík fjarstæða þetta er. Það mun nú vera slátrað á hjer um bil 60 höfnum á landinu og slátrunin fer fram nálega á sama tíma. Það er vitanlega hrein og bein frágangssök fyrir hverja höfn, að bíða eftir annarri, og hitt er ekki síður fjarstættt, að dýralæknarnir geti skift sjer í 60–70 parta. Þetta er því hugarburður einn og þoka.

Þá kem jeg að 3. atriðinu, sem jeg alls ekki vil gjöra lítið úr, læknishjálp dýralæknis við nágranna sína, eða þá, sem til hana eiga hægt með að ná. Háttv. framsögum. meiri hlutans (B. J.) reiknaðist svo til, að ef læknir læknaði 10 stórgripi, þá væru árslaun hans komin. Þar frá hefði nú mátt draga borgun til læknis fyrst og fremst, og svo það, sem gripirnir hefði lagt sig. Það er spá mín, að hæpið reynist, að dýralæknir borgi sig vel, eftir þessum reikningi. En væri það svo, að það væri gróði fyrir hjeruðin að hafa dýralækna, eins og háttv. minni hluti heldur fram, þá gæti komið til tals, að þau borguðu helming launanna. Slíkt væri bæði landssjóði ljettara; og auk þess fengist mikilvæg trygging fyrir því, að menn heimtuðu ekki dýralækna, án þess að þeir svöruðu kostnaði. Það er ekki undarlegt, þótt Austfirðingar vilji fá dýralækni, þegar það á ekki að kosta þá einn eyri, að hann komi. Auðvitanlega leiðir þekta til þess, að dýralæknir verður ekki einungis að vera í landsfjórðungi hverjum, heldur í hverju hjeraði, líkt og almennir læknar eru nú. Væri það gróði fyrir hjeruðin að geta náð til dýralæknis, þá er það gefið, að alveg eins og Fljótsdalshjerað hefði gróða af því, eins gætu Húnavatnssýsla og Skagafjarðarsýsla, og hvert annað hjerað sem er, grætt á því á sama hátt.

Þótt jeg geti ekki fullkomlega um þetta sagt, þá trúi jeg ekki á það, að svo stöddu máli. Jeg verð að halda mjer við það, sem jeg hefi tekið fram í nefndaráliti mínu, að það sje heilbrigðast, enn sem komið er, að halda sjer við tvo landsdýralækna, en vera ekki að stofna til fjórðungsdýralækna að svo stöddu.

Það er ekkert á huldu í þessu máli, nema þetta eina, hve mikils sje metandi þessi hjálp dýralæknanna við almenna kvilla, meiðsli á hestum og því líkt, því farsóttunum kunna þeir engin frekari ráð við, en almenningi eru nú kunnug.

Ef til vill er háttv. framsögum. meiri hlutans (B. J.) svo fróður, að hann geti gjört deildinni áreiðanlega grein fyrir því, hvað t. d. Magnús dýralæknir, sem hefir um 400 sjúklinga á ári, bjargar virkilega mörgum af þeim sjúklingum. Jeg hefi ekki hitt hann nýlega, en ætlaði mjer annars að spyrja hann um þetta. Jeg tel líklegt, þótt hann hafi 400 sjúklinga á ári, að það sjeu ef til vill ekki einu sinni 10, sem virkilega er bjargað, og við betri útkomu er varla að búast í sveitunum.

Jeg býst við að tala ekki aftur í þessu máli, en hafi menn ekki sjeð við lestur nefndarálits minni hlutans, í hvílíka þoku þetta mál er komið hjer í þinginu, þá býst jeg ekki við, að langar ræður geti sannfært menn um það.