04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

109. mál, skipun dýralækna

Sigurður Gunnarsson :

Eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) drap á, þá hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 686, sem fer fram á það, að einn dýralæknir skuli vra í landsfjórðungi hverjum.

Jeg þykist viss um, að hún fái góðan byr hjer í deildinni. Deildin er búin að samþykkja, að sjerstakur dýralæknir skuli skipaður í Austfirðingfjórðung í viðbót við þá, er fyrir voru, í Reykjavík og á Akureyri. En þá virðist mjer líka deildin hafa játað, að þörf sje eins dýralæknis í hverjum fjórðungi, enda hafa sumir þingmenn látið þá skoðun í ljós, að kostnaður sá, er því er samfara, verði ekki lengi að borga sig, þar sem bjargað muni verða miklu fleiri skepnum bænda, þegar auðveldara verður að ná til dýralæknis. Móti þessu virðist ekki verða borið með rökum. Jeg vona því, að brtt. mín, er fer fram á að Vestfirðingafjórðungur fái sjerstakan dýralækni, nái greiðlega fram að ganga. Að vísu er, sem stendur, ekkert dýralæknisefni tilbúið, en rjett er engu að síður, að lögleiða nú þegar dýralæknisumdæmi, svo að ekki þurfi lagabreytingu um það efni síðar.