08.09.1915
Neðri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

134. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis-og sýslunnarmönnum landssjóðs

Framsm. (Þorleifur Jónsson) :

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frumv.; get látið mjer að mestu nægja, að vísa til nefndarálitsins.

Jeg skal þó að eins með nokkrum orðum drepa á brtt. nefndarinnar. Fyrst er brtt. við 2. gr. Nefndin leit svo á, að ekki væri þörf á, að veita uppbót þeim embættis- og sýslunarmönnum, sem hafa yfir 2000 kr.tekur, og leggur því til að fella burt 5. og 6. lið 2. gr. Nefndin verður að vera þeirrar skoðunar, að þótt þessi uppbót sje sanngjörn til handa þeim, sem litlar tekjur hafa, þá geti samt ekki komið til mála að veita hana öðrum en þeim, sem úr mjög litlu hafa að spila.

Þá leggur nefndin til, að styrkur til barna embættis- og sýslunarmanna sje færður úr 15 kr. niður í 10 kr., en jafn framt leggur hún til, að fella burt há markið, 75 kr., svo að ef börnin eru mjög mörg, getur þessi styrkur farið fram úr því, sem frumv. ætlast til.

Þá leggur nefndin til, að lækka hundraðsgjaldið í 3. gr. þannig, að einhleypir menn fái 10% af launum, sem nema 500–1000 kr., og 5% af launum, sem nema 1000–1500 kr., og jafn- framt leggur nefndin til, að fella burt uppbót til þeirra einhleypra embættis- og sýslunarmanna, sem hafa yfir 1500 kr. í tekjur. Nefndin álítur hægara fyrir einhleypa menn að bjargast og yfirleitt er hún dræm í því, að veita þeim nokkra verulega uppbót.

Í 6. gr. frumv. er ætlast til þess, að stjórnarráðið fái 1000 kr. til uppbótar handa starfsmönnum þess, sömuleiðis 3000 kr. handa prestum og 3000 kr. handa læknum. Nefndin leggur til, að fella burtu þessa liði, en ætlast til, að þeir menn í þessum hóp, sem ekki hafa 2000 kr. í tekjur, fái uppbót í samræmi við tillögur nefndarinnar við 2. og 3. gr. frumv.

Enn er og brtt. við 6. gr:, um að hámark fyrir uppbót til símamanna verði fært niðar úr 1800 kr. launum í 1500 kr. En eftir bendingum, sem nefndin hefir fengið, þá er líklegt, að nefndin falli frá þessari tillögu, því að þessi málsgrein á við samninga, sem landsstjórnin hefir þegar gjört við vissan flokk starfsmanna, sem ekki verður breytt.

Hefi jeg svo ekki öðru við að bæta en því, að nefndin ætlast til, að uppbótin verði að eins til bráðabirgða og ekki lengur en vörur eru geysiháu verði, vegna afleiðinga stríðsins, og verði henni þá kipt burtu, þegar þessum afleiðingum stríðsins ljettir. Vona jeg, að háttv. deild samþykki þessar tillögur, og er þá meiri von, að frumv. nái fram að ganga.