08.09.1915
Neðri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

134. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis-og sýslunnarmönnum landssjóðs

Sveinn Björnsson:

Jeg held, að gætt hafi nokkurs misskilnings í niðurstöðu háttv. sessunautar míns (G. E.), niðurstöðu þeirri, sem hann komst að með forsendum þeim, sem fyrir liggja. Jeg ætla því að leggja honum lið, til þess að komast út úr misskilningnum.

Háttv. þingmaður sagði, að frumv. væri ófullkomið, af því að það næði ekki til verkamanna og verslunarfólks, og annara, sem þörf hafa á tekjubót, og þess vegna væri hann á móti frv. Þarna ályktar háttv. sessunautur minn ekki rjett. Rjett ályktun hjá honum hefði verið þessi: Jeg er fyrst og fremst með þessu frumv., en af því að mjer þykir það ekki ganga nógu langt, þá ætla jeg mjer að beitast fyrir, að bættur verði hagur verkafólks, iðnaðarmanna og annara, sem þetta frumv. nær ekki til.

Svona hefði háttv. þingmaður átt að álykta, enda vona jeg, að þegar hann athugar málið með þeirri skynsemi og gætni, sem honum er lagin, þá muni hann sjá, að það er honum til sæmdar, að greiða atkvæði með þessu frumvarpi.