09.09.1915
Neðri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

134. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis-og sýslunnarmönnum landssjóðs

Skúli Thoroddsen:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram örlitla brtt. við frv., er hjer um ræðir, og fer hún í þá átt, að dýrtíðaruppbótin sje einnig látin ná til allra þeirra, sem eftirlauna, eða styrktarfjár, njóta úr landssjóði, fari upphæðin ekki fram úr 1000 kr. á ári.

Hjer er um þá að ræða, konur og karla, sem segja má um, að sjeu á veg- um landssjóðs, ekki síðar en þeir, sem lögunum er ætlað að ná til, og sýnist því fullkomin sanngirni mæla með því, að tillagan verði samþykt.

Nái breytingartillaga mín samþykki þingsins, þá nær dýrtíðaruppbótin, meðal annars, til eigi fárra embættismannaekkna, er börn eiga á mentavegi, og sem við mjög þröng kjör verða yfirleitt að búa, og þá eigi hvað síst nú, er dýrtíðin sverfur mjög hart að öllum, er enga framleiðslu hafa við að styðjast.

Landssjóð munar þetta engu, en hina, sem njóta eiga, munar þó mikið um það, — dregur jafnvel, eða munar um, þótt ekki væri meira en 30–40 krónur. En þar sem hjer er um það fólk að ræða, sem yfirleitt er að mun ver sett, en embættis- og sýslunarmenn landsins, er þrengst eiga um hönd, þá er hjálparskyldan og jafnvel enn ríkari, er það á hlut að máli, en hinir, sem í frumvarpinu um getur.

Jeg vona því, að háttv. deild taki vel í þessa brtt. mína, enda skyldan einatt ríkari, að vera þeim æ vel, sem farnir eru að eldas, en hinum, sem enn eru í fullu fjöri, og svipað og um börnin, og um unglingana. -