08.09.1915
Neðri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

134. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis-og sýslunnarmönnum landssjóðs

Skúli Thoroddsen :

Þegar jeg bar fram þessa brtt., gjörði jeg mjer satt að segja — ekki miklar vonir um það, að hún næði fram að ganga hjer í deildinni, eins og hún er skipuð, en bygði á hinn bóginn fremur von mína á því, að væri þessu þó hreyft hjer á deildinni, þá myndi háttv. efri deild taka það til yfirvegunar, og á þann hátt gæti þá og eitthvað gott af því leitt, að jeg kom fram með hana.

En þó að jeg gjörði mjer þannig eigi miklar vonir um góðar undirtektir hjer í deildinni, hafði jeg þó ekki búist við því, að háttv. nefnd mundi snúast eins andvíg gegn brtt., eins og hún hefir nú gjört, eða — rjettara sagt — framsögumaður hennar.

Að því er snertir þá aðal-mótbáru háttv. framsm. (Þ. J.), að svo gæti farið, ef brtt. næði samþykki deildarinnar, að efnaðir menn hlytu þessa dýrtíðaruppbót, hefi jeg ekki öðru að svara en því einu, að það yrðu þá algjörar undantekningar, og má þá sjálfsagt engu síður finna dæmi þeirra í hóp þeirra, er nefndin sjálf nefnir þó í frumvarpinu.

Annars álít jeg alveg þýðingarlaust að fjölyrða um þetta, en mjer þykir það nokkuð hart, að setja þetta fólk alveg hjá, þar sem allur þorri þess er vitanlega mjög illa settur, og landssjóðurinn hefir þó gagnvart því tekið á sig þær skuldbindingar, að sjá um, að það þurfi þó ekki að hrekjast út á klakann, sem svo er kallað.

Allur þorrinn, sem breytingartillögu minni er ætlað að ná til, eru og ekkjur og gamalmenni, sem ekki hafa við neitt að styðjast nema þessi litlu eftirlaun, eða styrktarfje, sem það fær úr landssjóðnum.

Vonandi eru og — hvað, sem nefndinni líður — til þeir menn hjer í deildinni, sem ekki vilja láta sjer farast illa við þessi gamalmenni, sem áður hafa verið í þjónustu landsins, og ætti þetta málefni þeirra þá að vera í góðum höndum.

En deildin gjörir nú það, sem henni sýnist, og þykir sjer best sóma. Bregðist deildin sóma sínum, og sóma þjóðarinnar, í máli því, er hjer um ræðir, og felli brtt. mína, lifi jeg þó í þeirri voninni, að Ed. taki hana til rækilegrar yfirvegunar, og meti þá og hvorttveggja, sóma sinn, og þjóðarinnar, meira en Nd. gjörir.