12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

95. mál, stofnun Landsbanka

Ráðherra:

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) drap fyrst á það, að bankastjórnin hefði ekki verið spurð ráða um þetta frumv. Jeg skal minna hinn háttv. þm. á það, að árið 1909 lá líkt frumv. fyrir þinginu, og hygg jeg, að hinn háttv. þm. hafi ekki verið andvígur því. Þar var farið fram á það, að bankastjórar væru þrír, þar af einn lögfræðingur, en gæslustjórar skyldu afnumdir; alt var fyrirkomulagið svipað því, sem lagt er til með þessu frumv. Það er satt, að jeg hefi ekki náð til háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), svo að jeg hafi getað borið undir hann þetta frumv., en jeg hefi oft átt tal við samverkamann hans, hinn bankastjórann, um atriði þau, er í frv. felast, og hefir hann verið þeim fullkomlega samþykkur. Jeg man það, að 1911 átti jeg tal við hann, og þá þótti honum óheppilegt, að ekki væri lögfræðingur í bankastjórninni; ábyrgðin væri of mikil fyrir ólögfróða menn, að stýra svo stórri stofnun. Og um þetta frumv. höfum við líka talað, og hann haft sömu skoðun hjer um sem 1911. Vjer vitum það allir, að við dagleg störf bankans þarf mjög oft lögfræðaþekking, og þótt núverandi bankastjórar sjeu líklega prýðilega gefnir menn, þá brestur þá þessa þekkingu.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. g.) sagði, að aldrei hefði orðið klandur af því, að lögfræðingur væri ekki í bankastjórninni. Það má vera, en oft hefir það komið fyrir, að orðið hefir að fresta úrslitum málanna, til þess að bankastjórnin gæti leitað ráða hjá lögfræðingi. Hjá þessu mundi hafa orðið sneitt, ef lögfræðingur hefði átt sæti í stjórn bankans með fullri ábyrgð.

Háttv. þm. (B. g.) sagði, að innheimtan væri í höndum lögfræðings. Það kemur ekki þessu máli við; innheimtumaðurinn hefir enga ábyrgð á störfum bankastjórnar. Og þótt annar endurskoðandinn sje lögfræðingur, ágætur lögfræðingur, þá ber hann enga ábyrgð á gjörðum bankastjórnarinnar; endurskoðendurnir eru að eins töluendurskoðendur.

Sami háttv. þm. (B. K.) sagði, að bankastjórn Landsbankana þyrfti að vera vinnandi; það er auðvitað, enda er til þess ætlast í þessu frumv.

Ekki voru mjer ljós orð hv. þm. (B. K.) um kröfur þær, er gjöra þyrfti til þekkingar bankastjóranna. Vöruþekking ein og bókhaldskunnátta getur ekki verið nægt skilyrði til þess, að stýra bankastofnun. Vel má vera, að bankann vanti svo kallaðan »korrespondent« eða mann til þess að skrifa kaupsýslubrjef á þeim tungum, sem bankinn þarf á að halda. En trauður er jeg til þess, að trúa því, að til þess starfs þurfi endilega útlending, að íslenskir menn sjeu ekki fáanlegir, sem færir væru til þess.

Háttv. þm. (B. g.) sagði, að bankastjórninni væri kunnast um þarfir bankans. Það er líklegt, að bankastjórnin viti sumt, sem ábótavant er við bankann, er enginn mun viðurkenna það, að hún sje svo alvitur og almáttug, að henni geti ekki skjátlast.

Yfirleitt þótti mjer kenna allmikils hroka í ræðu háttv. þm. (B. K.), og rann mjer í hug orðtak einvaldshöfðingjanna fyrrum í Danmörku: »Vi alene vide«, þ. e. vjer einir vitum.

Jeg vil nú ekki fara út í það, hvernig Landsbankanum sje stjórnað. En það er víst, að honum er að sumu leyti vel stjórnað; aftur á móti eru sumar ráðstafanir bankastjórnarinnar svo lagaðar, að það mun að minsta kosti orka tvímælis, hvort heppilegar sjeu. (Björn Kristjánsson: Hverjar?). Fyrst háttv. þm. spyr þess, get jeg vel sagt frá því. Jeg á við meðal annars það, að bankinn er hættur að leysa inn seðla sína erlendis. Þessi ráðstöfun hefir þótt mjög ísjárverð; t. d. í Danmörku lítur alþýða manna svo á, að bankinn sje tæpt staddur, og þar vill enginn líta við seðlum Landsbankans. Jeg man það fyrr meir, að seðlar Landsbankans voru gjaldtækir í sjerhverju veitingahúsi í Kaupmannahöfn, en nú eru þeir jafnvel ekki teknir gildir á skipum í förum milli Íslands og útlanda. Þetta sjá allir, að er mjög óþægilegt. Að sjálfsögðu er þessi skoðun ekki meðal bankamanna; þeir vita auðvitað vel, að Landsbankinn er vel stæður (solvent). En þeir skilja jafnframt manna best, hvert glópskuverk þetta var, er bankastjórnin auglýsti það, að bankinn hætti að innleysa seðla sína í útlöndum. Jeg ætlaði ekki að draga þetta atriði inn í umræðurnar, en fyrst háttv. þm. G.-K. (B. K.) vildi vita álit manna um þessa ráðstöfun bankastjórnarinnar, varð jeg við tilmælum hans.

Háttv. þm. (B. K.) taldi bankanum aukast gjaldabyrði af þessu frumv. Sú byrði nemur að eins 4 þús. kr., því að til þess er ætlast, að gæslustjórarnir, sem ekki verða taldir mikils virði, falli burt.

Um 3. gr. frumv. hlýðir ekki að ræða við þessa umr.

Jeg býst við, að nefnd verði látin fjalla um málið, og vil jeg gjöra það að tillögu minni, að í það verði skipuð sjerstök 5 manna nefnd.