12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

95. mál, stofnun Landsbanka

Einar Jónsson :

Það er ekki í fyrsta sinni, sem talað er um það hjer á þingi, að stofna ný embætti, og er jeg þá oftast vanur að láta mig það nokkru skifta, en aldrei held jeg, að jeg hafi vitað aðra eins góðsemi og hjer á að sýna. Mjer skilst, að þetta sje aðallega gjört til þess, að ljetta störfum af bankastjórninni; en þegar nú svo vill til, að annar bankastjórinn er staddur hjer á þingi, og lýsir yfir því, að honum sje engin þægð í þessu, þá hefði jeg haldið, að eitthvað annað lægi nær, og þá hygg jeg, að til þessa hljóti að liggja einhverjar aðrar ástæður. Af þessum ástæðum getur þetta ekki verið nauðsynlegt, þar sem það líka er álit ýmsra kunnugra — þótt þá menn sje að vísu líka að finna, sem eru á gagnstæðri skoðun — að verkið hafi verið sæmilega af hendi leyst hingað til. Og kostnaður hlýtur þó ætíð að fylgja þessu nokkur, og út í hann vil jeg ekki leggja, nema knýjandi nauðsyn beri til.

Að vísu er svo til ætlast, að gæslustjórar bankans, og ef til vill fleiri starfsþjónar hans, hverfi, sje þriðja bankastjóranum bætt við, og kostnað þurfi því eigi að óttast. Skal jeg því ekki fara frekar út í það atriði nú.

Út af því, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði um þetta mál, vil jeg minna á það, að hann er vanur að vera manna slingastur til að finna upp ný embætti, enda er hann hjer ekki seinn á sjer, að minna á nauðsyn nýs embættis í Háskólanum; en ef það skyldi nú ekki vera þarfara en það, sem stofnað var fyrir hann í fyrra, þá vona jeg, að menn lái mjer ekki, þótt jeg geti ekki verið því meðmæltur. Jeg álít það alveg rjett, sem áður hefir verið minst á, að nú eigi ekki að auka útgjöldin að óþörfu á þessum alvöru- og ófriðartímum, heldur fara sem varlegast.

Um það, hvort vísa skuli þessu máli til nefndar þeirrar, sem þegar hefir verið kosin, eða kjósa nýja, vil jeg segja það, að mjer sýnist ekki ástæða til þess, að vera að fjölga nefndum fyrir mál, sem þetta, og sömuleiðis álít jeg það óþarft, að vera að taka það út af dagskrá nú. Jeg býst við að verða á móti því, bæði nú og síðar, nema nýjar upplýsingar komi fram, sem breyti þeirri afstöðu minni. Helsta ástæðan fyrir því, virðist mjer vera sú, sem hæstv. ráðh. tók fram, að bankinn þyrfti á lögfræðislegri aðstoð að halda, og væri þá heppilegast að aðstoðarmaðurinn bæri ábyrgð gjörða sinna. Þetta má telja frumvarpinu til gildis, og jeg hygg, að það hefði verið heppilegra, að láta þessa ástæðuna sitja í fyrirrúmi fyrir hinni, að ljetta störfum af bankastjórninni. Hæstv. ráðherra er svo mikill starfsmaður sjálfur, að hann ætti ekki að vera að hugsa um að ljetta störfum af þeim, sem ekki kæra sig um það.