12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

95. mál, stofnun Landsbanka

Ráðherra:

Eftir því sem ráða má af nefndarálitum þeim, er fram hafa komið í þessu máli, þá er það auðsætt, að þetta frumvarp verður ekki samþykt á þessu þingi. Stjórnin þarf samt ekki að vera óánægð, vegna þess, að bæði meiri og minni hluti gefa stjórninni rjett í því, að þörf sje á að athuga skipulag Landsbankans. Að því leyti hefir stjórnin fengið það, er hún þurfti.

Það gleður mig og mjög mikið, að háttv. l. þm. G.-K. (B. K.) álítur, að ekki væri þýðingarlaust, að fenginn væri bankafróður maður, til þess að fá markað fyrir veðdeildarbrjef, sem bankastjórninni hefir ekki tekist að koma út. Jeg er ekki að segja að þetta sje bankastjórninni beinlínis að kenna, en svona er því nú varið, og er ekki til neina að bera á móti því.

Sú aðferð var höfð árið 1909, ef jeg man rjett, að landssjóði var heimiluð 2 milj. kr. lántaka, til þess að kaupa fyrir veðdeildarbrjef bankans. Fyrir þetta fje voru veðdeildarbrjef keypt, eins og til stóð. Tilætlunin var upphaflega sú, að bankinn greiddi sjálfur þetta lán, bæði rentur af því og l00 þús: kr. afborgun á ári. En á þinginn 1913 er þessu breytt þannig, að bankinn er leystur undan því, að greiða afborgunina og landssjóði lögð sú skylda á herðar. Það er ekki svo að skilja, að jeg telji því fje illa varið, sem varið er til þess að styðja Landsbankann. En það er ekki laust við, að mjer þyki það óviðfeldið, að landið skuli þurfa að leggja bankanum svo og svo mikið fje árlega. Jeg vildi miklu fremur, að bankinn væri þannig úr garði gjörður, að landssjóður gæti leitað til hans, þegar hann er í fjárþröng, og að bankinn gæti annaðhvort lánað landssjóði beinlínis, eða sjeð honum fyrir lánstrausti annarataðar. Jeg myndi telja það æskilegra, ef þetta væri þannig. Það má vel vera, að það fyrirkomulag komist á innan skamma, að minsta kosti er það vonandi.

Viðvíkjandi sjálfu frumv. skal jeg taka það fram, að mjer skilst það vera misskilningur í nefndaráliti háttv. meiri hluta, þar sem það er skoðuð breyting á núgildandi lögum bankans, »að ráðherra á nú að mæla fyrir um samband bankastjóranna sín á milli«. Þetta er beinlínis ákveðið svo í 3. gr. laga nr. 12, 9. júlí 1909. Jeg vildi taka þetta fram, þó að jeg telji það alls ekki skifta miklu máli.

Þær raunverulega ástæður, sem mæla með því, að bankastjórarnir sjeu þrír, og einn þeirra lögfræðingur, taldi jeg við 1, umr. þessa máls. Auk þess hefir háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) sýnt fram á í ræðu sinni í dag, að það er engin fjarstæða. Jeg hirði því ekki um að fara út í þá sálma nú.

Í ræðu háttv. framsm. meiri hl. (J. J.) var fátt, sem jeg gat ekki undirskrifað, þó að jeg geti hins vegar ekki skrifað undir nefndarálit meiri hlutans, nje þá rökstuddu dagakrá, sem hann hefir borið fram. Háttv. meiri hl. ætlast til að landsstjórnin hlutist til um, að fjármálamaður verði ráðinn af bankastjórninni, til þess að útvega markað fyrir íslensk verðbrjef og jafnframt til þess, að útvega bankanum og landinu lánstraust erlendis. Eins og háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) tók fram, er það mjög óviðfeldið, að skora á landsstjórnina að láta bankastjórnina ráða þennan mann. Hitt getur auðvitað verið heppilegt, að landsstjórnin ráðfæri sig við bankastjórnina um margt í þessu máli. Dagskrá háttv. meiri hl. er frá mínu sjónarmiði ekki aðgengileg, og jeg fyrir mitt leyti get ekki greitt henni atkvæði.

Vitanlega hefði jeg langhelst kosið að fá sjálfu frumv. framgengt hjer á þinginu. En úr því að þess er ekki kostur að fá það, sem best er, þá fer mjer eins og öðrum, að jeg kýs það næst besta. Og það verður í þessu tilfelli dagskrá háttv. minni hl. Henni mun jeg því ljá atkvæði mitt, úr því að vonlaust er um, að frumv. verði samþykt.

Viðvíkjandi því, sem talað var um það, að ráða bankastjórnarinnar hefði ekki verið leitað um þessa breytingu, þá hefir það verið upplýst af háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), að á því var engin þörf. Eins og allir vita, hafa verið afnumin ýms embætti hjer á landi, án þess að það hafi verið samþykt af hlutaðeigandi embættismönnum. Jeg giska á, að landshöfðingjaembættið, landfógetaembættið og amtmannsembættin hafi verið afnumin 1903, án þess að þeir herrar hafi verið spurðir um, hvort þeim líkaði það betur eða verr.

Jeg er sammála háttv. framsm. meiri hl. (J. J.) um það, að Landsbankinn ætti helst að vera eins konar almennur milliliður milli landssjóðs og útlanda, og vera þess megnugur, að geta annaðhvort lánað landssjóði fje beinlínis eða sjeð honum fyrir lánstrausti. Þannig er um marga þjóðbanka í öðrum löndum, t. d. Englandsbanka, sem ljettir á þann hátt mikið undir með stjórninni.

Bæði háttv. framsm. meiri hl. (J. J.) og háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) töluðu mjög um pólitísk afskifti landsstjórnarinnar af Landsbankanum. Þau ummæli get jeg ekki tekið til mín. Bæði er stutt síðan jeg tók við völdum, og eins þykist jeg hafa haft þau ein afskifti af bankanum, að bankastjórnin þurfi þar ekki upp á að klaga. Jeg býst ekki við að hjer sje átt við það, að stjórnarráðið sá sjer ekki fært að láta bankann hafa 600 kr. til uppbótar fyrir brunnin skjöl bankans. (Björn Kristjánsson: Nei, nei). Sem sagt, jeg get ekki skilið, að bankastjórnin hafi ástæðu til að klaga undan samvinnunni við mig hingað til, heldur þvert á móti. Annað mál er það, að eins og fyrirkomulagið er nú, er stjórn bankana að vissu leyti pólitísk, þar sem það heyrir undir flokkabröltið í þinginu, hverjir eru skipaðir gæslustjórar. Getur oft farið svo, að tilviljun ein ráði, hvernig valið tekst. Jeg er ekki að segja, að þeir menn, sem nú eru gæslustjórar, sjeu ekki til þess hæfir. Valið hefir stundum tekist sæmilega, þó að það hafi ekki gjört. það alt af.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) mintist á það ákvæði í 4. gr. bannlaganna, að ef ágreiningur yrði á milli bankastjóranna innbyrðis, þá skæri sá gæslustjórinn, sem fyrr væri kosinn, úr þeim ágreiningi. Án þess að þetta komi því máli við, sem fyrir liggur, þá skal jeg geta þess, að mjer þykir þetta ákvæði mjög svo undarlegt. Það mun víðast vera venja, að þegar tvö atkvæði eru á móti tveimur, þá sje niðurstaðan neikvæð. En hjer getur farið svo, að hún verði jákvæð, þó að svo standi á.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) talaði mikið um það, að óheppilegt væri, að bankastjórnin væri ekki einvöld yfir bókara og fjehirði bankans. Hjer er jeg á gagnstæðri skoðun. Jeg held, að það sje víðast hvar siður, að þessir starfsmenn sjeu ekki skipaðir af bankastjórninni, heldur, ef um hlutafjelagabanka er að ræða, þá sjeu þeir skipaðir af bankaráðinu, en ef það er stjórnarbanki, þá af stjórninni. Þetta er líka eðlilegt, því að í ýmsum tilfellum getur þa.ð verið mjög svo óheppilegt, að þessir menn sjeu ekki nokkurn veginn sjálfstæðir starfsmenn stofnunarinnar, heldur alveg undir bankastjórnina gefnir. Það er auðvitað, að bankastjórnin gæti misbeitt valdi sínu yfir þeim, ef henni byði svo við að horfa, og án þess að hægt væri að hafa nokkra hönd í bagga með því. Hitt er ekki nema sjálfsagt, að ef þessir menn sýna bankastjórninni óhlýðni, þá hefir hún rjett til, og ber jafnvel skylda til, að snúa sjer til hlutaðeigandi yfirstjórnar bankans með kæru á hendur þeim.

Þá tók háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) það fram, að annar gæslustjórinn hefði aukastörf á hendi í þarfir bankans. Og þetta taldi hann kost. En það getur yfir höfuð ekki talist kostur, heldur þvert á móti, að það sje gjörsamlega óhafandi. Jeg lít svo á, að gæslustjórarnir megi alls ekki vera háðir bankastjórninni á nokkurn hátt, því að þeir eru, og eiga að vera, eftirlitamenn bankastjórnarinnar. En ef gæslustjórarnir hafa jafnframt á hendi önnur störf í þarfir bankans, þá er markmiðinu breytt. Í stað þess, að vera eftirlitsmenn bankastjórnarinnar, eru þeir orðnir háðir vinnuþegar hennar.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) gat þess, að annar gæslustjórinn ynni allan daginn í bankanum, og væri þannig í rauninni 3. bankastjórinn. Mjer skilst, að þetta sje játning frá hans hendi um það, að nauðsynlegt sje að hafa þrjá bankastjóra. Jeg get ekki skilið það öðruvísi.

Þá sagði háttv. þm. (B. g.), að ef bæta ætti við einum bankastjóra, þá væri rjettast að gæslustjórarnir væru kyrrir. Það held jeg að sje óþarfur »apparatus«, að 5 menn stjórni ekki stærri stofnun en Landsbankinn er enn.

Háttv. þm. (B. K.) lýsti því næst skipulaginu á stjórn bankans. Við þá lýsingu hefi jeg ekkert athuga; hún var vitanlega í aðalatriðum rjett. En það hygg jeg, að flestum hjer inni muni hafa verið þetta mál kunnugt.

Hann (B. K.) gat þess, að fyrst og fremst þyrfti bankastjórnin að hafa verslunarþekkingu og þekkingu á atvinnuvegum landsins. Það er auðvitað nauðsynlegt. Og jeg efast ekki um, að þessi þekking á fulltrúa í bankastjórninni nú. Jeg gjöri ráð fyrir, að 1. þm. G.-K. (B. K.) sje kunnugur atvinnumálum Íslands, bæði til sjávar og lands, og hinn bankastjórinn er þaulæfður, gamall verslunarmaður, og háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hefir líka við verslun fengist. En það þarf fleira en þetta, til þess að stjórna einum banka, svo að vel sje. Það þarf bæði víðsýni og fjármálaþekkingu yfirleitt, auk lögfræðisþekkingar, sem einnig er nauðsynleg, því að daglega koma fyrir í bankanum efni, sem krefjast lögfræðislegrar úrlausnar. Hitt má háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) best vita, hvort hann hefir sjálfur þá lagaþekkingu, sem til þess þarf.

Jeg hefi raunar oft tekið það fram áður, en jeg vil þó endurtaka það, áður en jeg sest niður, að það er alt annað, að hafa lögfræðing í bankastjórninni, með fullkominni ábyrgð á úrskurðum sínum, heldur en að leita til einhvers lögfræðings út í bæ, þó að góður geti hann verið, og fá hjá honum meira eða minna tvíræð svör, eins og vitanlegt er, að oft hlýtur að verða.

Annars held jeg, að ekki sje þörf, að hafa langar umræður um þetta mál, þar sem forlög frumv. eru alveg ákveðin. Að minsta kosti sje jeg ekki ástæðu til að segja fleira að þessu sinni.