12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

95. mál, stofnun Landsbanka

Björn Kristjánsson:

Jeg vildi að eins bæta nokkrum orðum við ræðu hæstv. ráðherra, og þá aðallega út af því, sem hann sagði, að bankinn ætti að vera nokkurs konar milliliður milli landsjóðs og útlanda. Með öðrum orðum, að bankinn ætti að vera þannig úr garði gjörður, að landsjóður gæti stutt sig við hann í fjárhagslegu tilliti. Jeg er alveg á sama máli um það, að þetta væri mjög æskilegt. En svo stendur á, að 20 árin næstu er þetta ekki hægt, nema bankanum verði veittur seðlaútgáfurjettur. Að öðrum kosti getur hann ekki uppfylt lánsþarfir landssjóðs. Enginn mundi verða þakklátari hæstv. ráðherra en jeg, ef hann vildi stuðla að því, að koma Landabankanum í það horf, að hann gæti lánað landinu, í stað þess, að landið þurfi að lána honum. En það, að landið þarf að leggja bankanum, liggur í því, að hann var stofnaður svo að segja með engu. Þegar kaupfjelög eru stofnuð án veltufjár; verða þau að láta aðra leggja til fje, til þess að reka með verslunina. Eins er um bankann. Hann verður að fá fje einhversstaðar frá, ef hann á að komast í það horf, sem honum er ætlað að komast í.

Hæstv. ráðherra talaði um, að nauðsynlegt væri, að fjármálamaður væri fenginn til þess að útvega markað erlendis fyrir íslensk bankavaxtabrjef. Síst mundi jeg hafa á móti því, ef það kæmi að einhverjum notum. Jeg veit ekki betur en að tilraun hafi verið gjörð í þá átt, og það jafnvel löngu áður en jeg kom að bankanum. En árangurinn varð lítill. Enda er ekki við öðru að búast. Í Danmörku er aðalmarkaðurinn. En svo stendur á, að Danmörk er sjálf í vandræðum með sín eigin bankavaxtabrjef. Og af því að við erum háðir þessu litla landi, getum við ekki sótt til annarra landa. Við getum ekki búist við öðru svari en þessu: »Farið til ykkar sambandalands«. Því að aðrar þjóðir líta jafnvel svo í, að þær styggi Dani með því að veita okkur lán. Þannig er ástandið. Og meðan svo er, er ekki hægt að búast við miklum árangri, þó að maður væri fenginn til þess að auka lánstraust okkar erlendis.

Hæstv. ráðherra talaði um, að dagskrá meiri hlutans væri óþingleg. Jeg fæ ekki sjeð, að hún sje það, þó að þingið skori á stjórnina að ýta á bankastjórnina að gjöra þær ráðstafanir, sem þar er talað um. Þetta er ekki annað en það, sem oft skeður. Jeg álít alveg lýtalaust fyrir deildina, að samþykkja þessa dagskrá.

Dagskrá minni hlutans er svo víðtæk, að hún mundi hafa þrefaldan kostnað í för með sjer á við hina, ef hún væri samþ. Og er það því tilfinnanlegra, sem lítil von er um árangur. Menn verða að gæta að því, að næstu árin er ekki viðlit að selja verðbrjef í öðrum löndum, hvorki í Danmörku nje annarsstaðar. Eftir styrjöldina munu flest lönd eiga nóg með sig.

Jeg skal ekki deila um það við hæstv. ráðherra, hvort heppilegra sje, að bókari og gjaldkeri bankans sjeu skipaðir af landsstjórninni eða ekki. Jeg hefi mína meiningu um það og hann sína. Jeg benti á annmarkana við það fyrirkomulag í fyrri ræðu minni. Og því vil jeg bæta við, að enginn í þessum sal þekkir betur hvað við á í því efni en bankastjórnin. Hún ein hefir reynsluna til að byggja á. Það var vitanlega rjett hjá hæstv. ráðherra, að bankastjórnin getur kært þessa starfsmenn, ef þeir óhlýðnast henni. En áranginn af þeirri kæru er mikið kominn undir því, hvernig stjórnin tekur í málið, hvort hún vill heldur víkja bankastjórninni frá eða þeim seka.

Jeg get ekki heldur fallist á skoðanir hæstv. ráðherra um gæslustjórana. Að vísu eru þeir meðstjórnendur, en jeg skoða þá jafnframt aðallega sem vinnumenn bankans, og þeir eru því nýtari, sem þeir vinna meira. Og vitanlega kemur ekki annað til mála, eins og jeg hefi áður sýnt fram á, jafnvel þó bankastjórarnir verði þrír, en gæslustjórarnir, kosnir af Alþingi, haldi áfram að starfa í bankanum.

Hæstv, ráðherra sagði, að það eitt væri ekki nóg, að verslunarfróður maður væri í bankanum, þótt hann kannaðist við, að það væri nauðsynlegt, en hann þyrfti jafnframt að hafa víðsýni í í verslunarmálum. Þetta er auðvitað rjett, en jeg þekki ekki einn einasta lögfræðing hjer á landi, sem hafi víðtækan verslunarfróðleik. Og jafnvel þótt lögfræðingur sæti ekki í stjórn, þá hefi jeg marg sýnt fram á það, að bankinn getur fengið eins ábyggilega lögfræðislega aðstoð og lögfræðingurinn sæti í stjórninni, ef að eina væri leitað til góðra manna, og þá er auðvelt að fá hjer í Reykjavík.

Jeg skal ekki fjölyrða þetta meir;frumv. gengur hvort sem er ekki fram. Þetta, sem jeg hefi sagt, er að eins að skoða sem leiðbeiningu fyrir eftirtímann.