12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

95. mál, stofnun Landsbanka

Ráðherra:

Það er að eina örstutt athugasemd út af ræðu háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.). (Björn Kristjánsson: Jeg er dauður). Jeg skal ekki halda óvinsamlega líkræðu. Viðvíkjandi dagskrá þeirri, er meiri hluti nefndarinnar ber fram, þá skal jeg geta þess, að jeg tel hvorki heppilegt nje hyggilegt, að samþykkja hana. Hún gefur stjórninni ekkert vald í málinu, en ætlast að eins til að hún stuðli að því, að bankastjórnin gjöri það, sem dagskráin fer fram á. Ef bankastjórnin er á öðru máli en landsstjórnin, þá getur hún ekkert gjört. (Björn Kristjánsson: Við erum hlýðin börn). Já, en sje bankastjórnin á gagnstæðri skoðun, þá getur það orðið til mikillar tafar, jafnvel þótt hún hafi hinn besta vilja.

Háttv. þingmaður (B. K.) vildi fæla menn frá því, að samþykkja dagskrá minni hl., með því að framkvæmd þess, er hún fer fram á, hefði kostnað í för með sjer. En þar er alveg sama máli að gegna með dagskrá meiri hlutans; og jafnvel þótt salan á brjefunum verði eigi framkvæmd þegar í stað, þá geta tímarnir alt af breytst, og getur verið rjett, að leita fyrir sjer dálítið áður.

Jeg vil taka það fram, að almenningur, bæði kaupsýslumenn og framleiðendur, kvarta sífelt yfir því, að fje vanti og ekkert sje gjört af hálfu stjórnarinnar nje bankastjórnarinnar, til þess að bæta úr því. Maður þarf ekki annað en fara út á götu, þá kveða þessar raddir stöðugt við. (Björn Kristjánsson: Menn kvarta alt af um slíkt?. Það er auðvitað, að ekkert verður gjört svo öllum líki, en því er nú óneitanlega svo farið, að hjer þarf að bæta úr.

Viðvíkjandi orðum háttv. þingmanns (B. K.) um skipun bókara og gjaldkera í Íslandsbanka, þá er það ekki rjett, að þessir starfsmenn sjeu skipaðir af bankastjórninni. Það er bankaráðið, sem skipar þá. Í öðrum löndum er því líka svo farið, að þar sem þjóðbankar eru, skipar stjórnin þessa starfsmenn, en í »privat«-bönkum gjörir bankaráðið það. (Björn Kristjánsson: Bankastjórn ber þá ekki ábyrgð á mönnunum). Jú, vitanlega ber hún ábyrgð á því, að þeir ræki sín verk. Óhlýðnist þeir löglegum skipunum bankastjórnarinnar, þá ber hún sig auðvitað upp undan því, og er landsstjórninni eða yfirstjórn bankans þá auðvitað skylt að bæta úr því.

Jeg hygg, að háttv. þm. (B. K.) hafi ekki skilið mig rjett, þar sem hann var að tala um lögfræðislega aðstoð til bankastjórnarinnar. Við skulum hugsa okkur þau tvö tilfelli, að lögfróður maður sje í stjórn, og hitt, að öll stjórnin sje ólögfróð. Komi nú eitthvert lögfræðislegt atriði til álita, þá leitar stjórnin auðvitað ráða hins lögfróða bankastjóra. Hann segir, að atriðið sje vafasamt, en hann myndi leysa úr því á þenna og þenna hátt. Bankastjórnin fylgir auðvitað tillögu hans og skrifar undir ráðstöfunina eins og hann vill hafa hana. Sje aftur móti enginn lögfróður maður í stjórn bankans, þá leitar stjórnin til einhvers lögfræðings út í bæ. Hann kveður atriðið vafasamt, nefnir 2–3 lausnir, sem allar má verja. Mjer þykir sennilegt, að hann mundi oft svara eitthvað á þessa lund. Jeg þekki slíkt af eigin reynslu, því að slíkt kemur svo þráfaldlega fyrir, að ekki er hægt að gefa alveg ótvíræða úrlausn. Bankastjórnin verður því í þessu tilfelli, að ráða málinu til lykta upp á eigin spítur.

Háttv. 2. þm. Rvk. (J. bí.) hefir svarað orðum háttv. þm. (B. g.) um hin politísku afskifti stjórnarinnar af bankanum. En jeg er samdóma háttv. þm. (B. K.), að pólitík í sambandi við bankann er óheppileg. Það færi best á því, að allir þjónar hans stæðu algjörlega fyrir utan alla flokkapólitík. Þar sem það hefir orðið að ráði, að útiloka landsyfirdómendur frá því, að taka þátt í þingsetu, þætti mjer best fara á því, að hið sama væri látið gilda um bankastjóra. Undir yfirdómendur bera ekki nema 50–60 dómsmál á ári, en samt sem áður hafa þeir verið sviftir kjörgengi, af ótta við það, að þeir kynnu að líta öðru vísi á málin af pólitískum ástæðum. Aftur á móti bera undir bankastjórana mörg hundruð mál árlega, þar sem það gæti komið til greina, að þeir litu, óafvitandi, dökkum eða ljósum augum á málinu, eftir því hverrar skoðunar viðkomandi maður væri. Í báðum þessum stöðum er það jafnskaðlegt, að menn sjeu riðnir við flokkspólitík. Mjer dettur ekki í hug að segja, að mennirnir dæmdu rangt vísvitandi; það getur komið fyrir, án þess að þeir hafi hugmynd um það sjálfir. Löggjafarvaldið hefir að minni hyggju ekki verið »konsequent« í þessu efni. Það hefði líka átt að svifta bankastjóra þjóðbanka vors kjörgengi.