12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

95. mál, stofnun Landsbanka

Frsm.meirihl.(Jón Jónsson):

Hv. frsm. minni hl. (J. M.) þótti það ákvæði dagskrár meiri hlutans, að bankastjórnin skyldi sjá um útvegun þess manns, er hún talar um, bæði óþinglegt og óheppilegt. Jeg get ekki fallist á þessa skoðun háttv. þm. (J. M.). Jeg fæ ekki annað sjeð en stjórnin geti kosið bankastjórnina til þess að framkvæma þessa ráðstöfun. Þverskallist hún víð því, þá getur landsstjórnin vikið henni frá, En ástæðan til þess, að uppástunga okkar fór í þessa átt, var sú, að við álitum þetta myndi verða affarasælla. Jafnvel þótt landsstjórnin væri vel kunnug, þá mundi bankastjórnin þó eiga hægra með að hitta á rjetta manninn.

Enn fremur skal jeg leyfa mjer að benda á, að það er sá munur á dagskránum, að dagskrá minni hlutans gjörir ekki ráð fyrir þessum manni fyrir næsta þing, en dagskrá okkar bindur atriðið að eina við lok ófriðarins. Fari nú svo, að hann endi bráðlega, þá eru líkur til þess, að málið geti orðið fyrr útkljáð á þenna hátt. Standi hann aftur á móti lengur yfir, þá er ekki gjörlegt að ráðast í þetta, fyrr en hann er úti.

Jeg finn svo ekki ástæðu til þess að fara frekar út í málið, þar sem umræður eru orðnar talsvert langar.