12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

139. mál, fjölgun ráðherra

Ráðherra:

Það, sem frumv. þetta fer fram á., er ekkert nýmæli, því að 4–5 árin síðustu hefir mikið verið skrifað um það í blöðin og talað og samþykt um það á Alþingi, hversu óheppilegt það væri, að hafa einungis einn ráðherra hjer á landi. Auðvitað gat þessu ekki orðið breytt fyrr en stjórnarskrárbreytingin hafði náð fram að ganga. Jafnframt því, að stjórnarskráin var staðfest, hlutu lög um afnám ráðherraeftirlauna staðfestingu. Sú mótbára á móti fjölgun ráðherra, að hún mundi hafa eftirlaunabyrði í för með sjer, er því fallin úr sögunni.

Í athugasemdunum við frumv. er gjörð grein fyrir því, hvers vegna stjórnin telur þessa breytingu nauðsynlega. Sje jeg ekki þörf á að rekja þær ástæður nánar við þessa umræðu.

Eitt atriði get jeg búist við, að ýmsir felli sig ekki við, og það jafnvel þeir, sem annars eru hlyntir þessari breytingu. En það er, að stungið er upp á tveimur ráðherrum. Oftast hefir verið talið hagkvæmast, að þeir væru þrír. Jeg fyrir mitt leyti gjöri þetta ekki að neinu ágreiningsatriði.

Um það er jeg viss, að það mun marg borga sig fyrir landið, að fleiri en einn maður hafi stjórnina á hendi og beri ábyrgð á henni. Það má vel vera, að þetta mál mæti mótspyrnu af líkum ástæðum og 2. málið á dagskr. (Landsbankastjórn). Jeg get ekki sett það fyrir mig, en verð að halda því fram, sem jeg tel sjálfur rjettast og heppilegast.