16.07.1915
Neðri deild: 8. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

11. mál, verðtollur

Einar Jónsson :

Jeg get verið háttv. flutningsm. (B. J.) samþykkur um eitt atriði, sem sje það, að hver tollalög, sem eru, geti aldrei verið svo útbúin, að öllum geðjist að þeim. En hinu er jeg mjög ósamþykkur, að koma nú fram með þetta frumv. á þeim erfiðu tímum, sem nú standa yfir.

Eins og hæstv. ráðherra hefir tekið fram, þá er verðtollurinn miklu órjettlátari nú á tímum en vörutollurinn. Hann hefir fært rækileg rök fyrir þessu, og jeg er honum fullkomlega samdóma um það.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) talaði um heimildarlög, en jeg hygg, að það yrði síst heppilegra fyrirkomulag, ef stjórnin ætti að hafa leyfi til að hringla með þetta, eftir því sem á stendur í það og það skiftið. Jeg sje ekki betur en að vörutollurinn komi sanngjarnara niður, eins og stendur. Það liggur í augum uppi, að 100 pund af mat hafa jafnmikið notagildi í dýrtíð eins og á góðum verslunarárum, en samkvæmt verðtollsfrumv. yrði tollurinn þó mun hærri í dýrtíðinni. Jeg verð yfir höfuð að álíta,

að óbeinir skattar sjeu miklu órjettlátari en beinu skattarnir. Maður þekkir dæmi þess, að efnaður maður kemst af með 3–4 menn í heimili, en fátækur maður eða efnalítill þarf oft og tíðum að fæða 10–15 manns. Þegar þessir menn kaupa inn nauðsynjar sínar, geldur fátæki maðurinn miklu meiri skatt heldur en sá efnaði. Það liggur því í augum uppi, að óbeinu skattarnir koma miklu órjettlátar niður. Fátæki maðurinn þarf að nota alt sitt til að komast af, en sá efnaði leggur til hliðar það, sem hann þarf ekki að nota., og getur því átt stóreignir fyrirliggjandi, t. d. fje í sparisjóðum, sem hann geldur alls engan skatt af. Efni og ástæður hvers eins manns eiga að liggja til grundvallar fyrir því, hve mikið hann á að gjalda til opinberra þarfa.

Jeg skal nú ekki segja meira að sinni, því að jeg býst við, að þetta frumvarp komi til mín og minna meðnefndarmanna, svo að jeg mun þá fá tækifæri síðar til að segja álit mitt um það. En jeg lít svo á, að ekki beri að afnema vörutollslögin að svo stöddu, en fresta því að minsta kosti þangað til yfirstandandi dýrtíð ljettir af.