06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

11. mál, verðtollur

Framsögum. meiri hl. (Björn Kristjánsson) :

Eins og háttv. deild er kunnugt, skiftist nefndin í þrjá hluta í þessu máli, og hafa komið fram jafnmörg nefndarálit. Yfirleitt virðist andinn vera sá í nefndinni, að menn sjeu heldur mótfallnir þessum verðtolli, enda þótt þeir hafi flestir skrifað undir nefndarálit mitt með fyrirvara.

Jeg vil þá leyfa mjer að minnast stuttlega á einstök atriði í nál. háttv. flutnm. (B.J.) á þgskj.177, og þau rök, sem hann færir móti vörutolli og með verðtolli. Jeg skal reyna að vera stuttorður, en fyrst þarf jeg að leiðrjetta nokkrar rangfærslur og ónákvæmni, sem kemur fram í áliti hans. Hann segir t. d. að jeg, sem skrifaði nefndarálitið á þgskj. 167, telji það voða fyrir landið, að hækka fasteignarskattinn. Þetta er ekki rjett; heldur hefi jeg haldið því fram, að það væri ekki hættulaust, að hækka fasteignartollinn svo, að verulega munaði um. Svo talaði hann um hinn mikla ójöfnuð, sem stafaði af vörutollinum. En jeg hefi margtekið það fram áður, að verslunin lagar þennan ójöfnuð á pappírnum. Eins telur hann verðtollinn, og tilfærir nokkur dæmi því til sönnunar úr umræðum fyrri þinga eða eftir skýrslu, sem einn háttv. kaupmaður gaf honum 1912. Jeg skal nú leyfa mjer að benda á það, ef verðtollurinn kæmist á, myndi lenda miklu þyngri tollur á ýmsa nauðsynjavöru, t. d. mjölvöru. Haframjöl mun venjulega kosta um 24 kr. tunnan; 3% af því verða 72 au., en samkvæmt vörutollslögunum eru greiddir 20 au. af hverjum haframjölssekk, 100 kíló. Af grjónum, sem venjulega kosta 20 kr. sekkurinn, ætti þá að greiða 60 au. eftir verðtollinum í stað 20 au. nú. Sama er að segja um bankabygg. Eftir verðtollinum yrði því þrefaldur tollur á þessum nauðsynjavörutegundum við það, sem nú er samkvæmt vörutollinum, og hygg jeg, að ekki væri mikil bót að þeirri breytingu, að minsta kosti ekki fyrir fátækari hluta þjóðarinnar.

Þá kom hann með það dæmi, sem oft hefir verið minst á, að með vörutolli sje sama gjald á silki og ódýrari vefnaðarvöru. Jeg hefi margtekið það fram, að það er óhjákvæmilegt, að svo sje, meðan ekki er til fullkomið tolleftirlit í landinu.

Hann segir, að auðveldara sje að koma við tollsvikum eftir vörutollinum heldur en með verðtolli. En jeg get fullvissað hann um, að það vill enginn kaupmaður vinna það fyrir, að setja eina vöru í umbúðir með annari óskyldri vöru, til þess að komast hjá hærra gjaldi. Svo lítill munur er á tollgjaldinu á hinum ýmsu vöruflokkum, er gætu verið í sömu umbúðum.

Þá segir hann, að oft sje búið um glysvarning með því, sem kallað er »grove Jærnvarer«. Grove Jærnvarer koma venjulega umbúðalausar, en jeg veit ekki til, að silki og glysvarningur komi nokkurn tíma án umbúða.

Þá segir háttv. þingm., að heiðarlegir menn muni ekki svíkja kaupreikninga, Jeg er honum alveg sammála um það. En lögin eru ekki gjörð svo úr garði vegna hinna heiðarlegu manna, heldur einmitt vegna þeirra., sem óheiðarlegir eru og hafa tilhneigingu til þess að svíkja. Ef allir menn væru heiðarlegir, þá þyrfti engin lagaákvæði, til þess að forðast svik; þá væri það eitt nægilegt, að láta viðtakendur greiða tollinn samkvæmt þeirra eigin framtali.

Háttv. þingm. segir enn fremur, að það atriði á móti heilbrigðri skynsemi, að miða tollinn við þunga vörunnar. Jeg skal ekki fara út í þessa staðhæfingu hans, sem hann reynir ekki að rökstyðja, að sinni. Um það geta auðvitað verið misjafnir dómar, en það fullyrði jeg, að hjer á landi er þetta það eina fyrirkomulag, sem á við. Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um nefndarálitið, en víkja dálítið að frumvarpinu sjálfu.

1. gr. gjörir ráð fyrir því, að 3% gjaldið sje borgað af verðhæð vörunnar með umbúðum. Má jeg spyrja háttv. þingm. að því, hvort meiningin sje sú, að þær einar vörur sjeu tollaðar, er flytjast hingað á umbúðum. Ef svo er, fara þær margar á mis við toll, eins og t.d. viður, járn o. s. frv., sem alt af er flutt umbúðalaust. En ef meiningin er ekki þessi, þá er orðalagið svo óskýrt, að greinina verður að orða um.

2. gr. frv. segir, að tollinn skuli greiða eftir kaupreikningi (faktúru), er ávalt skuli fylgja hverri sendingu. Þetta er að mínu áliti ákaflega misráðið ákvæði. Það er svo algengt; að reikningarnir komi annaðhvort á undan sendingunni eða þá ekki fyrr en nokkru seinna, að jeg álít það ákaflega ósanngjarnt og jafnvel ómögulegt, að heimta það af mönnum, að þeir fylgi þessu boði. Og vöruskráin og skipsskjölin gefa engar upplýsingar um verð vörunnar. Þá er það og ákaflega nærgöngult, að gefa heimild til þess, að skoða kaupreikninga og verslunarbækur viðtakanda. Slíkt ákvæði þekkist hvergi annarstaðar í heiminum, að leyfa mönnum að vaða inn í hús viðtakanda í þessu skyni.

3. gr. frumv, segir:

»Nú fylgir kaupreikningur ekki vörusendingu, eða vöru er ekki getið í kaupreikningi, og skal þá tollheimtumaður eða umboðsmaður hans kyrsetja vöruna á kostnað viðtakanda, þangað til kaupreikningur er sýndur«.

Eins og jeg tók fram, þá þekkist ekki svona ákvæði í neinu landi. Kaupreikningarnir eru þeir helgidómar hverjum verslunarmanni, að það er stakasta skerðing á viðskiftafrelsi, að fara fram á., að menn þurfi að opinbera þá. Ákvæðið um kyrsetningu er sömuleiðis mjög ósanngjarnt. Reikningarnir koma mjög oft seinna en varan sjálf, en viðtakandi á heimtingu á því, að geta verslað með vöruna strax, er hann hefir tekið á móti henni. Sjerstaklega er ákvæði eins og þetta mjög óheppilegt hjer á landi, þar sem menn eru oft í vandræðum með að ná í vöru, og þurfa jafnframt að geta fengið hana á ákveðnum tíma, eins og t. d. þeir, sem búa til sveita. Ákvæðið getur því orðið bæði kaupmanni og viðskiftamönnum hana til tjóns. Raunar er gjört ráð fyrir því, að viðtakandi geti fengið vöruna, gegn því að setja tryggingu, en það er bæði vafningasamt og mönnum gjört óþarfa ónæði með því.

Enn fremur stendur í greininni: »Nú kemur kaupreikningur ekki fram, enda viðtakanda ekki sök á því gefandi, og og metur tollheimtumaður þá vöruna til verðs o. s. frv.«. Hver á að sanna, að viðtakanda sje »sök á gefandi«. Það er alveg ómögulegt. Og yfirleitt getur hann enga ábyrgð borið á því, hvort hann fái nokkurn reikning. En þá hefir lagaákvæðið heldur enga þýðingu. Og svo á tollheimtumaður að meta vöruna. Það er svo vafningamikið, að viðtakandi getur beðið stóran baga af því. Og er nokkur trygging fyrir því, að tollheimtumaðurinn kunni að meta vöruna?

4. gr. segir: »Nú þykir verð á vöru óeðlilega lágt, og skal þá meta hana á sama hátt og segir í 3. gr.«. En hver getur sagt um það, hvort verðið sje óeðlilega lágt, og hver hefir vit á að meta vöruna rjett? Enginn getur vitað, hvað einstaklingurinn hefir gefið fyrir hana, hann getur hafa komist að góðum kaupum, og þá er það ósanngjarnt gagnvart honum, að meta vöruna hærra. Hann getur hafa keypt illa, en það er engin ástæða til þess að gefa honum eftir toll fyrir það.

Enn fremur talar greinin um, hvað hvað gjört skuli, ef maður hafi sett verðið oflágt í undandráttarskyni. En hvernig á að sanna það, að sá tilgangur hafi verið fyrir hendi? Það er ómögulegt. Og hvaða þýðingu hefir þá, að vera að setja lagaákvæði um það.

Jeg sje, eins og jeg hefi margsinnis sagt, enga leið til þess, að lög um verðtoll geti nokkurn tíma komist á hjer, því að grundvöllurinn er alt af of óábyggilegur. En þó að þetta frumv. verði ekki að lögum nú, þá hefi jeg viljað gjöra þessar athugasemdir vegna þess, að það er á dagskrá, og getur komið til umræðu einhvern tíma síðar.

Háttv. flutningsm. (B. J.) hefir alveg gengið fram hjá því, hve afaróþægilegt þetta ákvæði um afhending kaupreiknings, jafnframt viðtöku vörunnar, er sem á þó að vera aðalgrundvöllurinn fyrir eftirlitinu. Jeg hefi margsagt það, að kaupreikningarnir eru ekki nærri alt af sendir jafnhliða vörunni, og þarf samt ekkert grunsamlegt að vera við það. Það er t. d. afareðlilegt, að slíkt komi oft fyrir hjá t. d. föður og syni, bræðrum eða fjelögum, sem búa sitt í hvoru landi. Og menn mega ekki missa þá vernd, sem alt af hefir verið viðurkend, að fá að hafa reikninga sína og verslunarbækur fyrir sig, án þess að aðrir hafi leyfi til þess að hnýsast í þá.

Það mætti alveg eins nema úr gildi ákvæði hegningarlaganna um refsingu fyrir brot á brjefleyndinni. En háttv. flutningsm. (B. J.) hefir alveg gengið fram hjá þessu þýðingarmikla atriði.

Jeg skal svo ekki eyða tímanum lengur, en langar til, áður en jeg setst niður, að beina þeirri fyrirspurn til háttv. flutningsm. (B. J.), hvort hann ætlist til þess, að 3% gjaldið nái jafnframt til þeirra vörutegunda, sem nú eru sjerstaklega undanþegnar vörutolli, svo sem tóbak og kaffi. Það verður nefnilega ekki sjeð á sjálfu frv.