19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

24. mál, forkaupsréttur landssjóðs á jörðum

Guðmundur Hannesson:

Hjer er að ræða um mikilsvert frumvarp sem að nokkru leyti gjörbreytir stefnu undanfarinna ára, þjóðjarðasölunni.

Þjóðjarðasölulögin höfðu þann tilgang, að fjölga sjálfseignarbændum, og gangi jörðin úr sjálfseign, þá sýnist öll ástæða horfin fyrir því, að hún sje einstakra manna eign.

Nú er það svo, að lítt er fram úr vandanum ráðið, þótt jarðirnar gangi úr eigu einstaklinga. Hvað á svo við þær að gjöra og hvernig leigja, svo að rjettlátt verði og vinsælt? Á landssjóður eða hrepparnir að eiga jarðirnar ? Að minni hyggju ber fyrst að ráða fram úr þessum vandaspurningum, áður en sú stefna er tekin, að gjöra jarðir aftur að opinberum eignum.

Þetta jarðeignamál er talið eitt með erfiðustu viðfangæfnum þjóðanna. Þess vegna hefði jeg kosið, að málið hefði fengið undirbúning hjá stjórninni. Annars má það heita merkilegt, hve erfitt er að afla sjer upplýsinga um þjóðhagi hjer á landi. Engar skýrslur eru til um það, hve margir sjálfseignarbændur eru á ári hverju á landinu. En eftir manntalsskýrslum 1910 hygg jeg láta nærri, að leiguliðar sjeu um 60% allra bænda. Sjálfseignarbændur eru því miklu færri, þrátt fyrir alla þjóðjarðasölu.