30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

24. mál, forkaupsréttur landssjóðs á jörðum

Sigurður Sigurðsson:

Jeg býst ekki við, að það hafi mikla þýðingu að tala frekar um þetta mál, þar sem jeg er einn í minni hluta í sjö manna nefnd. En mjer kemur það kynlega fyrir, hve andvígir meðnefndarmenn mínir eru nú þessu frumv., þar sem þó sumir þeirra greiddu atkvæði 1912 með frumv., er fór í mjög svipaða átt og þetta. Það er, eins og háttv. frsm. meiri hl. (G. H.) tók fram í ræðu sinni, aðallega 1. atriði í 2. gr. frumv., sem þeim fanst að væri ísjárvert, með því að það kæmi of nærri 51. gr. stjórnarskrárinnar. Úr þessu væri hægt að bæta, með því að samþykkja viðaukatillögu mína á þgskj. 96. Jeg verð að halda því fram, að með þessari tillögu sje bætt úr því, er meiri hlutinn álítur athugavert við frv:

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess, að fjölyrða meira um þetta mál, en vona einungis, að meiri hluti háttv. deildar athugi þetta vel, er jeg hefi sagt, og greiði atkvæði með breytingartillögunni og frumvarpinu.