21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

34. mál, stofnun kennaraembættis

Bjarni Jónsson:

Jeg get ekki látið þessa umræðu liða svo hjá, að jeg segi ekki örfá orð um það, hverjar skyldur á oss hvíla við Háskólann. Það er mín skoðun, eins og jeg sagði áður, þegar Háskólalögin voru samþykt og fjárveitingin til hans, að það mál ætti að standa fyrir ofan allar flokkadeilur, að stofna þenna Háskóla vorn og efla hann og auka síðan. Stofnun hana hlýtur að vera eitt af happadrýgstu sporum á þeirri leið, að verða sjálfstæð þjóð, sem haldi sæti sínu með heiðri. Jeg veit að minsta kosti ekkert stærra spor, sem enn hefir verið stigið, og ekkert, er leggja megi til jafns við það; nema stofnun Eimskipafjelags Íslands.

En ljóst mátti það vera öllum, að þótt þessi byrjun væri gjörð, þá mætti hún skamman tíma óbreytt standa, heldur yrði þegar að fara að smá bæta við hana. Og það mega allir vita, að hjeðan af líður ekki svo þing, að ekki verði við hana bætt, því að enn er hún ekki nema vísir, sem hlynna þarf að. Og í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að þótt oft sje kvartað um óþörf embætti, þá er hjer annan veg ástatt en um nokkur önnur embætti. Þau hafa verið nokkur til, sem nú eru við Háskólann, áður en hann kom, og verið sæmilega þjónað í nokkur ár. En það er sitt hvað, hvort á að fjölga sýslunarmönnum í þeim stöðum, sem þó hafa verið til áður, eða að fá menn til þeirra starfa, sem enginn hefir verið til að gegna áður, en alls ekki mega niðri liggja. Þá verður þjóðin, bæði sóma síns og hagsmuna vegna, að vinda bráðan bug að því, sem allra fyrst.

Það er staðföst reynsla, að í sambandi við frelsi og framfarir landa er háskóli ein hin dýrasta hnoss, sem hugsast getur. Það er hverri þjóð hið mesta mein, að þurfa að senda sonu sína til annara landa til allrar æðri mentunar, og láta þá verða þar fyrir óþjóðlegum og óhollum áhrifum. Jeg þarf eigi að nefna oss Íslendinga eina til dæmis um þetta, því að enn er það í minni manna, hve sárt Norðmenn fundu til þessa fyrr á tímum, og þá muna menn hitt, hve mikil var gleði þeirra, þá er þeir mintust fyrir skemstu 100 ára afmælis þess viðburðar, er þeir fengu svipaðan vísi til háskóla, sem okkar er nú. Það er því annað og meir, sem hjer er um að ræða en að fjölga sýslunarmönnum ann arsstaðar, þar sem nógir eru starfskraftar fyrir.

Jeg heyri eitthvað umla í 1. þingm. Árn. (S. S.), og mundi hann vilja sagt hafa, að nóg væri fyrir af ráðunautum sem ættu eftir að sanna tilverurjett sinn, og skal jeg sýna honum það betur seinna, ef jeg hefi tíma til.

En svo að jeg víki að þessu litla frumv., sem hjer er fram komið eftir tilmælum læknadeildarinnar, þá veit jeg það, að áður hefir verið farið fram á það að fá settan á stofn fullkominn kennarastól í þessum fræðum og að þörfin er svo mikil, að það væri fásinna, ef þessu væri neitað nú. Það vita allir, svo að jeg nefni að eins einn af kennendum þessarar deildar að Guðm. prófessor Magnússon hefir unnið þar að undanförnu það sem er fjögra manna verk annarsstaðar. Og líkt má segja um háttv. flutntn. þessa frumv. (G. H.), að hann hefir oft unnið þar þriggja til fjögra manna verk. »Varaðu þig Valnastakkur«, mætti segja við ráðunautana, »fallinn er hann Fjögramaki«. Þegar þessir fjögramakar eru fallnir í valinn, hvern á þá að fá, sem stígi í þeirra spor? Jeg nefndi áðan Guðm. prófessor Magnússon. Hann er nú á miðjum aldri nær útslitinn maður, og líkt hygg jeg sje um háttv. 1. þingm. Húnv. (G. H.), að hann hafi oftast haft of mikið að gjöra, og segi jeg ekki þetta af því, að jeg vorkenni honum, heldur af því, að það er satt.

Hjeraðslæknirinn hefir og, svo sem kunnugt er, hlægilega litla borgun fyrir þá kenslu, sem hann hefir á hendi, móts við það, sem annarstaðar gjörist, og það má segja, að Alþingi sje undarlega innrætt, ef það vill níðast á mönnum fyrir vel unnið starf.

Jeg tala þessi orð ekki af því, að jeg búist við, að margir háttv. þingmenn verði andvígir þessu frumv., heldur af því, að enn er til þessi andi, ef anda skyldi kalla, (Sigurður Sigurðssom: Dragsúgur!), nei, þetta staðvindi austan úr Flóa, sem heimtar 5 miljónir handa sjálfu sjer, en sparnað við alla aðra.