06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

34. mál, stofnun kennaraembættis

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi í sakleysi mínu borið fram brtt. þess efnis, að fella niður það takmark, að embættisveitingin sje bundin við Norðurálfuófriðinn. Það er ekki gott að segja, hve nær þeirri styrjöld lykur og vel má vera, að hingað berist megnir sjúkdómar og hættulegir gerlar, stríðsins vegna, og er þá nauðsynin enn meiri, að hafa þenna mann. En aðalatriðið fyrir mjer er það, að frv. gangi fram þannig, að menn fari ekki á mis við þjónustu þess manns, sem sjerþekking hefir í þessum fræðum.

Nú er straumbreyting í vinnuframboði hjer á landi. Framvegis verður ekki svo sem um vora daga, sem snapa urðum hjer og biðja um hitt og þetta fyrir engin laun. Ungir sjerfræðingar segja nú: Hjer er jeg. Viljið þið taka mig? Ef ekki, þá fer jeg. Nú getur Alþingi ekki mylgrað úr sjer vinnulaunum, eina og náðarbrauði, og neytt menn til þess að lifa af skjaldaskriflum og baugabrotum, víxlum og öðru verra. Íslendingum hefir nú lærst að hagnýta þekking sína annarsstaðar en hjer; mentamenn og vísindamenn láta ekki lengur kvelja úr sjer lífið hjer.

Aðaltilgangurinn með þessari brtt. minni er að tryggja það, að haldið verði föstum miklum dugnaðarmanni, Stefáni Jónssyni, sem hefir sjerþekking á þessa fræði, og vjer megum ekki missa við, með því að enginn er til í skarðið. En þótt nú þetta sje aðaltilgangurinn, þá tek jeg þó brtt. aftur, með því að margir eru henni andvígir, til þess að engu verði spilt og til þess að enginn hafi hana til skálkaskjóls fyrir vonda samvisku sína.