06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

34. mál, stofnun kennaraembættis

Jóhann Eyjólfsson:

Mjer virðist svo, sem ekki liggi mikið á, að stofna þetta embætti, fyrst ekki á að skipa í það fyrr en eftir tvö ár. Jeg held, að það sje best að láta það bíða til þess tíma, og láta þá, sem þá lifa, ráða hvað þeir gjöra í þessu tilliti. Annars kann jeg illa við þann hugsunarhátt og stefnu, sem hjer ríkir, og lýsir sjer í því, að nauðsyn virðist að búa til embætti og stöður handa mönnum, vegna mannanna sjálfra, án þess að líta á, hvort veruleg nauðsyn sje á. Jeg mun vera talinn standa nokkuð framarlega í minni stjett í því, að búa til slíkar stöður, en þó kannast jeg ekki við, að jeg vilji gjöra það, nema jeg telji þörf á því. Hitt er mjer fjarri, að búa til embætti, er jeg tel óþörf, handa sjerstökum mönnum, eins og mjer skildist vera meiningin eftir orðum háttv. þm. Dal. (B. J.). Ilt er það að vísu, að missa ágæta menn út úr landinu, en Íslendingar eru áreiðanlega af mjög góðum kynstofni og hjer fullkomin von og vissa um, að því muni ætíð verða til nægilega mikið af ágætum og dugandi drengjum, til að skipa í þau embætti og stöður, sem til falla. Aftur á móti lítthugsandi, að hægt verði að mynda stöðu handa hverjum manni, sem góða hæfileika hefir; slíkir menn verða sjálfir að ryðja sjer braut.

Jeg verð því að álíta, að hættulaust sje, að hleypa þessu máli fram af sjer nú.