06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

34. mál, stofnun kennaraembættis

Einar Jónsson :

Mjer finst, að það sje ekki annað en óþörf hræðsla, sem komið hefir fram hjer í deildinni, að maðurinn, sem um er að ræða, myndi tapast landinu, ef það yrði ekki stofnað handa honum þetta embætti nú þegar. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, hefir mjer skilist, sem þessi hræðsla sje ekki á neinum rökum bygð. Þessi maður mun ekki vera tilbúinn enn að taka við þessu embætti, hefir enn ekki lokið námi til fulls, og jeg hefi skilið það svo, sem hann mundi gjöra sig ánægðan með að taka við því, þótt það dragist um tíma, að það yrði stofnað. Hann mundi doka við um tíma að fá sjer fasta stöðu, ef hann ætti von á, að slíkt embætti, sem þetta, yrði stofnað, og hann þá ætti vissa von um, að komast að sem kennari við skólann.

Þegar um það er að ræða, að stofna ný embætti við Háskólann, þá ber mikla nauðsyn til að fara að öllu sem gætilegast. Kjósendur hjer á landi geta ekki sett sig inn í það, að nauðsynlegt sje að stofna 1–2 embætti við hann á hverju ári, og mig furðar það í raun og veru ekki, þótt þeir eigi bágt með að sjá, hvaða þörf er á slíku, þegar við meira að segja, sem fjöllum um málin, deilum um það, hvort brýn þörf sje á þessu eða hinu embættinu. Mjer finst það því ekki nema sanngjarnt, að sem allra varlegast sje farið í þessu efni.

Því hefir verið haldið fram, að prófessorarnir við Háskólann sjeu svo önnum kafnir við störf sín, að það væri hart á því, að þeir kæmu öllu í verk, sem þeim væri ætlað að starfa. Jeg veit nú ekki nákvæmlega um það, hvað hæft er í þessu, en þegar tekið er tillit til þess, að 12–15 tíma vinnutími er algengastur við almenna vinnu, þá sje jeg ekki með besta vilja, að 18 stunda vinna á. viku sje ofvaxið hverjum fullhraustum manni, þó skólakennari sje. (Bjarni. Jónsson: Sumir hafa ekki nema 2–3 kenslustundir á viku). Það getur vel verið að það sje svo með grískudocentinn, að hann hafi ekki meira að gjöra í sínu embætti en svo, að 1 stund nægi hana starfi á viku, og ósennilegt þætti mjer ekki, þó hann kæmist af með enga stund á viku; en sem betur fer eru ekki allir jafn óþarfir embættismenn .eins og hann. Jeg skal ekkert um það þræta, hvort það sje þörf á að stofna þetta embætti, sem hjer er um að ræða, en um hitt þræti jeg, að prófessorarnir og yfir höfuð kennararnir við Háskólann hafi ekki of langan vinnutíma.

Jeg er því samþykkur, að þetta embætti verði ekki stofnað nú þegar, heldur með þeim takmörkunum, sem segir í brtt. á þgskj. 202; með öðrum orðum, ekki fyrr en Norðurálfuófriðnum er lokið, og ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 1917. Jeg sje ekki ástæðu til að flýta málinu meir en þetta; ekki síst nú, þegar tímarnir eru svona erfiðir, sem þeir eru nú, er ástæða til að fara gætilega að því, að auka mjög útgjöldin.