30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

42. mál, Möðruvellir í Hörgárdal

Guðmundur Eggerz:

Jeg vildi leyfa mjer að benda á, að mjer skilst það ekki rjett hjá landbúnaðarnefndinni, að frumvarp þetta komi í bága við 2. gr. þjóðjarðasölulaganna. 2. gr. miðar ekki til annars en að takmarka heimild umboðsvaldsins til að selja þjóðjarðir og kirkjujarðir. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu, að ný lög sjeu samin um sölu á þessari jörð eða öðrum jörðum.

Enn vil jeg benda á, að það getur ekki verið varhugavert, að samþykkja þetta frumv., þar sem stjórninni er með því að eins veitt heimilt til að selja jörðina. Það er ekki verið að skylda hana til þess. Eins og við vitum hafa fyrirfarandi stjórnir farið varlega í sölu þjóðjarða og kirkjujarða, og er engin ástæða til að ætla annað en að áframhald verði á því.