30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

42. mál, Möðruvellir í Hörgárdal

Jóhann Eyjólfsson:

2. gr. þjóðjarðasölulaganna tekur það skýrt fram, að ekki sje heimiluð sala á þeim þjóðjörðum eða kirkjujörðum, sem viðkomandi sýslunefndir mæla á móti að fargað sje úr eigu hins opinbera. Þetta er í samræmi við þá skoðun, að gjöra sem flestar jarðir að sjálfsábúðarjörðum, aðrar en þær, sem hið opinbera þarf til sinna nota. Þess vegna á ekki að selja neina þá jörð, sem viðkomandi sýslunefnd mælir á móti að seld sje (Bjarni Jónsson: Alþingi má gjöra það), en Alþingi á ekki að gjöra það, því að ekki er hægt að búast við, að það hafi betur vit á því, hvað heppilegast er í því efni, heldur en viðkomandi sýslunefnd. Það er hart, ef menn hafa hugsað sjer, að koma upp nytsemdarfyrirtæki, t. d. skóla, á einhverri sjerstakri jörð, sem er þjóðar eign, að Alþingi taki þar fram fyrir hendurnar á mönnum, og gjöri það fyrir einstakan mann, að farga jörðinni og gjöra þar með slíkar framkvæmdir ómögulegar. Það ætti ekki að koma fyrir. Því ætti jafnvel að bæta inn í lögin, að hreppanefndirnar hefðu einnig umsagnarrjett um þessi mál. Á því er oft full þörf. Þó að jeg sje mjög hlyntur þeirri stefnu, að sem flestar jarðir lendi í sjálfsábúð, þá vil jeg ekki að það komi fyrir, að hreppum eða fjelögum sje gjört ómögulegt að halda sjerstökum jörðum eftir, sem hentugar eru til einhverra sjerstakra framfarafyrirtækja. Ef hreppsnefndin eða sýslunefndin hafa fastar og ákveðnar hugsjónir eða stefnu um til hvers þessi sjerstaka þjóðjörð skuli notuð, hjeraðinu til gagns og gengis, þá tel jeg það óhæfu, að Alþingi beiti valdi sínu gagnvart þeirri reglu.