28.07.1915
Neðri deild: 18. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

44. mál, fuglafriðun

Guðmundur Eggerz:

Jeg vil benda háttv. nefnd á það, að jeg hygg það vera óheppilega aðferð, að taka eldri lögin orðrjett upp. Jeg lít svo á, að ráðstöfun sú, sem háttv. nefnd stingur upp á, sje að eins til bráðabirgða, gjörð til þess að gjöra mönnum hægra fyrir að afla sjer ódýrara matarhæfis, meðan á dýrtíðinni stendur og erfiðleikunum á að afla sjer bjargar, vegna ófriðarins. Sje þetta tilgangur nefndarinnar, sem jeg hygg vera, þá er það ekki nema eðlilegt, að t. d. sje numið burtu lagaákvæðið um friðun rjúpna. En nefndin hefir líklega ekki gætt þess, að með því að taka upp eldri lögin óbreytt, þá verða um leið ófriðaðar ýmsar fuglategundir, sem enginn maður leggur sjer til munns, t. d. ernir og ýmsir smáfuglar, sem friðaðir voru árið um kring, svo sem t. d, svölur, tjaldar, stelkar, óðinshanar, hrossagaukar, starrar, vepjur, lóarþrælar o. s. frv. Jeg vil leyfa mjer að skjóta því til hv. nefndar; sem vill gjöra svona miklar breytingar, sem ekkert bæta úr matarskorti, hvort hún vildi þá ekki líka láta breyta friðunarákvæðunum um lóur og spóa. Það eru fuglar, sem eru ágætir til matar og mundu vera skotnir nokkuð; ef þeir væru friðaðir á rjettan hátt. Þessa fugla má ekki skjóta fyrr en eftir 1. ágúst, en þá er það lítt mögulegt, vegna þess, að á þeim tíma eru fuglarnir farnir að safnast í hópa og gefa ekki færi á sjer. Þessu ætti að breyta, færa ófriðunartímann til 20. júlí. Það mundi bæta mikið úr. Það er ekki ástæða til þess að friða þessa fugla hjer, vegna þess, að þeir eru skotnir unnvörpum í útlöndum, þegar þeir fljúga þar yfir. (Sveinn Björnsson: Eru þetta ekki einstök atriði?). Nei, þetta eru princip-atriði og bendingar til nefndarinnar. Þá vil jeg líka skjóta því til háttv. nefndar, hvort ekki sje rjett að breyta friðunarákvæðunum um lunda. Hann er nú friðaður á tímanum frá 10. maí til 20. júní. Það ætti ekki að þurfa að friða hann lengur en til 3. júní, því að hann verpur ekki fyrr. Aftur á móti væri rjett að hafa hann friðaðan lengra fram eftir, því að eftir því sem nú er, má drepa hann meðan hann liggur á og er að unga út.

Þessum athugasemdum vil jeg skjóta til háttv. nefndar til yfirvegunar.