28.07.1915
Neðri deild: 18. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

44. mál, fuglafriðun

Guðmundur Hannesson :

Mjer finst frumv. þetta, sem hjer liggur fyrir, satt að segja hneykslanlegt. Við lifum nú á alvörutímum; dýrtíð vofir yfir landinu og menn hjer í bæ eru allkvíðafullir margir hverjir og hugsandi um það, hvernig þeir fái framleytt lífinu. Til þess að athuga, hvað gjört yrði, til þess að ráða bót á þessu, hefir þingið nýlega kosið nefnd og hún hefir komið fram með þetta frumv., sem byrjar á því, að friðaðir skuli vera snjótitlingar og maríuerlur, en skjóta megi erni, hrafna og uglur, líklega sjer til matar. Ef nefndin hefði tekið til fáeina matfugla og leyft að skjóta þá á heppilegum tíma, þá gat hugsast, að það hefði komið að einhverju gagni, en annars hygg jeg, að fáir verði feitir af fugladrápi, og landslýð yfir höfuð muni verða það að litlum notum, síst fátækum bæjarbúum. Og ekki þykir mjer líklegt, að fuglaverðið verði svo lágt og framleiðslan svo mikil, að það hleypti niður kjötverðinu. — Jeg býst ekki heldur við, að margir fátæklingar geti hlaupið út um fjöll og firnindi, til þess að skjóta rjúpur handa matarlausum heimilunum.

Jeg get ekki að því gjört, að þetta frumv. hneykslar mig, og jeg býst ekki við, að það komi að verulegu gagni.