28.07.1915
Neðri deild: 18. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

44. mál, fuglafriðun

Jóhann Eyjólfsson:

Jeg er hissa á því, hve hörð orð hafa fallið hjer í deildinni út af því, að stungið er upp á að gefa mönnum leyfi til, í erfiðum kringumstæðum að gjöra sjer mat úr rjúpunni og öðrum ætifuglum. Satt að segja finst mjer frumv. nefndarinnar ekki ganga nógu langt. Og það er hálf einkennileg hugsun hjá háttv, þm., sem talað hafa á móti frumv., að vilja heldur að rjúpan verði ránfuglum, að bráð en leyfa mönnunum að nota hana sjer til matar. Það er áreiðanlegt, að það fer mikið meira af rjúpu í fálkann og aðra ránfugla, heldur en í menn, þegar litið er til þess, hvað þeir eyðileggja af ungum og eggjum. Eyðilegging ránfugla væri því hin mesta friðun á rjúpu og öðrum ætifuglum, og það er einkennilegt, að kjósa fremur að hlynna að þeim. En þar á móti virðist mjer, að þingið ætti að hugsa meira um manninn en ránfuglana, og unna honum fremur að hafa þetta æti. Við vitum það allir, að svo mikið er til af rjúpunni, og viðkoman svo mikil, að henni stafar lítil hætta af mönnunum; ránfuglar, tóur og harðindin eru þar mikið skæðari. Af manninum stafar henni ekki hætta, nema ef vera skyldi í harðindum, þegar hún neyðist til þess að fljúga niður í bygðina á útmánuðum, Þess vegna þarf helst að friða hana seinni part vetrar. En þótt hún sje skotin framan af vetri, getur henni varla fækkað fyrir það.

Þótt það sje kann ske fögur hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir friðunar- lögunum, þá held jeg, að menn fari þar of langt. Fuglinn verður hvort sem er, samkvæmt eðli sínu, einhverntíma að deyja, og þá er ekki betra, að hann verði fremur öðrum að gagni en manninum, sem gefið er leyfi til að lifa á skepnum þeim, sem á jörðinni eru.