06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

44. mál, fuglafriðun

Framsögum. (Sveinn Björnsson):

Þessar brtt. eru komnar fram á elleftu stundu til að »bjarga« málinu, að sögn flutningsmanns. Úr því að þær hafa komið fram, vil jeg minnast stuttlega á þær frá mínu sjónarmiði. Nefndin hefir ekki haft tíma til að athuga þær, svo að það, sem jeg segi, segi jeg að eins fyrir sjálfan mig. Þessar brtt. eru ekki skaðlegar að efni til, en jeg vil þó undirstrika það, sem jeg hefi áður margtekið fram, að það var meining nefndarinnar, að innleiða það ástand, sem var áður en núgildandi fuglafriðunarlög gengu í gildi, til þess að rugla sem minst í lögunum. Jeg hjelt, að jeg þyrfti ekki að segja þetta nema einu sinni, til þess að það skildist, en háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir ekki skilið það, þótt hann hafi heyrt það tvisvar. Þess vegna segi jeg það nú í þriðja sinn, og bið hann nú að taka vel eftir.

Háttv. sessunautur minn (G. E.), sem biður nú um orðið, heldur víst að frumvarpið sje fram komið til þess, að gefa honum leyfi til þess að borða uglur. En það var þó ekki meiningin, heldur var það ætlun nefndarinnar, að færa lögin í sama form og þau voru í, áður en núgildandi friðunarlög gengu í gildi. Jeg held, að það sje heppilegast, að halda því formi, sem nefndin hefir stungið upp á, einmitt til þess – svo jeg taki það fram enn einu sinni — að menn eigi hægra með að átta sig á, hverjir fuglar eru friðaðir og hverjir ekki; Jeg mun því fyrir mitt leyti greiða atkvæði á móti brtt.

Hvað það snertir, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði, um að dýrtíðarnefndin hefði ekki gjört annað en að koma fram með þetta eina frumv., sem hann telur mjög ómerkilegt, eins og hann lýsti með málshættinum latneska, sem hann fór þó með í íslenskri þýðingu, þá get jeg ekki skilið, hvað honum gengur til að segja þetta, nema ef hann vill fá tækifæri til að láta það sjást í Þingtíðindunum, að þingmaður geti sagt ósatt. Því að honum er fullkunnugt um það, að heimildarlögin, sem samþykkt voru hjer í deildinni í dag, vegna Norðurálfustyrjaldarinnar, eru líka komin frá dýrtíðarnefndinni, og eru þau að dómi hans sjálfa og annara mjög mikilsvert mál.