06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

44. mál, fuglafriðun

Jóhann Eyjólfsson:

Mjer er illa við þessar brtt. á þgskj. 243. Jeg sje ekki, að neitt sje meint með þeim, sem til gagns megi verða. Það sýnist vera sama, hvort 1. gr. verður samþykt eða ekki, því að hvað sem lagabókstafurinn segir um það, hvort þessir smáfuglar skuli friðaðir eða ekki, þá veit það hver maður, að í þeim er engin matbjörg, og því ekki til neins að slægjast, að veiða þá, enda er líka sama sem ekkert gjört að því. Ef þörf er á að friða þá, myndi það helst vera fyrir kettinum og ránfuglum, en þeir hlýða lítt lögum.

Þá er brtt. við 2. gr., viðvíkjandi því, að taka aftur ófriðunina á ránfuglum. Það finst mjer illa til fundið, því að mjer er ekki vel við ránfuglana, tel þá illa og óþarfa, og á engan hátt landinu til uppbyggingar. Aftur á móti þykir mjer vænt um litlu fuglana og þá fugla, sem við getum haft til matar. Jeg hugsa fyrst og fremst um manninn, að hann hafi eitthvað til að lifa á. En ránfuglarnir eru skæðir keppinautar okkar mannanna í því tilliti, því að í þá fer mikið af eggjum og ungum og yfirleitt af fuglakjöti. Það getur ekki annað vakað fyrir þeim mönnum, sem vilja friða ránfuglana en að viðhalda sem fjölskrúðugustu dýraríki. Jeg sæi ekkert, eða að minsta kosti mjög lítið, eftir ránfuglunum, þótt þeir eyddust með öllu. Mjer væri líka alveg sama, þótt jeg sæi aldrei tófur, rottur eða mýs, þrátt fyrir það, þó að með því kæmi dálítið skarð í dýraríkið okkar og gjörði það fátækara og ófjölskrúðugra en áður. Þar á móti vildi jeg feginn stuðla að því, að fjölga þeim fuglunum, sem bæði eru okkur til gagns og gamans. Það væri búmannlegra, að gjöra dýraríkið auðugra og fjölskrúðugra á þann hátt.