04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögumaður (Magnús Pjetursson:

Hæstv. ráðherra tók af mjer ómakið með að svara háttv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.), svo jeg get látið mjer nægja lítilfjörlega athugasemd. Háttv. þm. segir, að jeg hafi misskilið sig, og að allar vegagjörðir frestist, ef tillaga fjárln. um Grímsnesbrautina, verður samþykt. En jeg fæ ekki skilið, að það hefði önnur áhrif en þau, að Grímsnesbrautinni yrði ekki lokið fyr en 1924; í staðinn fyrir 1923. Sami þm. gat þess enn fremur, að það gæti leitt til þess, að verkfræðingarnir yrðu verklausir. En jeg vil geta þess, að Jón Þorláksson landsverkfræðingur segir, að ef jafnmargar brýr verði byggðar, og nú er talað um, þá verði að fá verkfræðing í viðbót, vegna þess, hve mikið þeir hafi að gjöra. Þetta stafar af vatnsvirkjum o. fl. (Ráðherra: Þetta er rjett hermt). Það er því síður en svo, að þá muni vanta verkefni.

Það er rjett, að það eru vandræði með lækna víðar en í Reykjarfirði. En þetta er eina atriðið í fjárlögunum, hið eina, er lá fyrir, og því ekki hættulegt, enda sjálfsagt, ef þingið vill gæta sanngirni og sóma síns. Jeg vona að þeir tímar komi, að við getum hjálpað öllum hjeruðum um lækna, bæði Borgfirðingum eystra og Grímseyingum, sem og öðrum. En það þýðir ekki, að veita fje til þess, fyrr en læknishjeruðin eru stofnuð, og einhverjar líkur til, að læknar sjeu til í þau.

Háttv. þm. G.-K. (K. D.) gat þess, að Magnús læknir Júlíusson, mundi ekki fara í læknishérað úti á landi, þó hann fengi ekki styrk. Það vakti heldur ekki fyrir fjárln., heldur stefnan. Við eigum ekki að uppörfa læknæfni til að gerast sjerfræðingar, á meðan þeirra er full þörf út um land, og mörg hjeruð eru læknislaus. Það er gott að hafa sjerfræðinga í Reykjavík, en betra fyrir þjóðina, að hafa lækna í öllum læknishjeruðum landsins.