31.07.1915
Neðri deild: 21. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

54. mál, póstsparisjóðir

Pjetur Jónsson:

Jeg vil taka undir með háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.), og bæta því við, að þegar heil frumv., samin af einstökum mönnum, koma þannig frá nefnd, þá ætti að minsta kosti að mega vænta þess, að þeim fylgdu ítarlegar athugasemdir frá nefndinni. Hjer á þingi er gjört alt of lítið að því, að rita ítarleg nefndarálit og aðrar skýrandi athugasemdir, og segi jeg þetta alls ekki til þess, að áfellast þessa sjerstöku nefnd, öðrum framar, heldur af því, að jeg hefi, eins og hv. þm. Snæf. (S. G.), fundið til þess, að hjer hefir, sem oftar, of lítið komið fram beinlínis um skoðun nefndarinnar sjálfrar.