06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

54. mál, póstsparisjóðir

Framsm. (Guðmundur Hannesson):

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frumv., sem hjer liggur fyrir. Nefndarálitið sýnir það, þó stutt sje, að nefndin er öll á einu máli um, að vilja ráða deildinni til að samþykkja frumv. En nefndarálitið er því stutt, að prentað er sem fylgiskjal brjef frá póstmeistaranum um þetta efni, og þar tekið fram flest það, sem nefndin taldi þörf á að taka fram.

Helsta breytingin, sem við leggjum til að gjörð verði á frumv. er sú, að láta ekki stofna þessa sparisjóði við alla póstafgreiðslustaði. Við óttumst nefnilega að svo geti farið, að þá keppi póst-sparisjóðirnir við almenna sparisjóði, og það verðum við að álíta miður heppilegt. Nefndin ætlaðist til, að póstsparisjóðir yrðu heppileg viðbót við spari sjóði vora, þar sem þeir næðu ekki til, og annað ekki.

Jeg skal taka það fram, að þetta frv. er í öllum aðalatriðum sniðið eftir sams konar lögum útlendum.