29.07.1915
Neðri deild: 19. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

48. mál, aukabað á sauðfé

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Jeg ber þetta frumv. fram eftir tilmælum kjósenda minna. Það hafa sem sje komið fram kvartanir um það, að ekki hafi hepnast vel um árið, þegar útrýma átti kláðanum. Hann er nú aftur orðinn svo útbreiddur víða, að sýnt er, að þá hefir verið unnið fyrir gýg alt það verk og öll þau fjárframlög, sem þá gengu til þess, að vinna bug á honum.

Aðalorsökin til þess að svona fór, var sú, að þá hugðu menn, að nóg væri að baða fjeð einu sinni, þá væri maurinn drepinn. En nú hefir Magnús Einarsson dýralæknir sýnt fram á það, meðal annars, í sjerstökum ritlingi, að eitt bað er ekki nóg, því að það vinnur ekki á eggjum maursins, heldur verður að baða aftur eftir svo sem 12 daga, þegar ungarnir eru skriðnir úr eggjunum, ef duga skal, til þess að útrýma sýkinni algjörlega. Þess vegna er hjer nú fram komið þetta frumv. um að baða tvisvar og nota þá hið almenna þrifabað, annaðhvort 12 dögum fyrir eða eftir þetta aukabað, sem hjer er gjört ráð fyrir. Kosta þá bændur sjálfir annað baðið, en landssjóður hitt, samkvæmt lögum, og ætti þá enginn vafi að vera á því, að með þessu yrði hægt að vinna bug á kláðanum að fullu og öllu, með svo litlum tilkostnaði, að ekki er von til þess, að hann geti nokkurn tíma minni orðið.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta að sinni, en legg það til, að frumv. verði vísað til hinnar vitru búnaðarnefndar, sem sjálfsagt ber gott skyn á málið og leiðrjettir galla þá, sem á kunna að vera.

Jeg skal geta þess, að jeg hefi heyrt það út undan mjer, að stofnað þyki til hættu með því, að nefna í frumv. nöfn tveggja núlifandi manna, með því að þeir geti dáið, og skal jeg játa það, að þeir eru ekki ódauðlegir, og hefi því ekkert á móti því, að í stað nafnanna verði sett: dýralæknarnir sunnan lands og norðan. Meiningin er hvort sem er að eins sú, að farið sje með málið eftir tillögum þeirra, sem vit hafa á, en ekki einhverjum kerlingabókum.