18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

48. mál, aukabað á sauðfé

Framsögum. meiri hl. (Guðm. Hannesson):

Jeg held, að öll aðalatriði, sem við koma þessu máli, sjeu tekin fram í nefndaráliti meiri hlutans. Það, sem við aðallega byggjum okkar álit á, er það, að við teljum mjög vafasamt, að útrýmingarböðun komi að fullu gagni. Aftur á móti er meiri hl. ekki í vafa um, að svo framarlega, sem því mætti treysta, að útrýmingarböðun kæmi að fullum notum, þá væri því fje vel varið, sem gengi til hennar. Að vísu er enginn vafi á því, að rækileg tvíböðun læknar kláðann, ef hún er vel og samviskusamlega framkvæmd, en einmitt á þessu vill verða mikill brestur, er svo margir menn fást við böðunina, sem ætíð hlýtur að vera, ef baðað er um land alt. Þetta kom skýrt í ljós, er Myklestad reyndi útrýmingarböðun. Úr sumum sveitunum var þá kláðanum útrýmt algjörlega, en í öðrum hjelst hann við, og þær sýktu aftur frá sjer.

Annars lítur út fyrir, að kláðinn sje ekki mjög víða á landinu. Samkvæmt skýrslum frá árunum 1905–1906 hafði fundist kláði á 19 bæjum, en síðustu skýrslur telja ekki kláða nema á 16 bæjum. Jeg kannast auðvitað við, að ekki er mikið byggjandi á skýrslunum, en jeg býst ekki við, að þessar síðustu skýrslur sjeu vitlausari en þær fyrri, svo það lítur frekar út fyrir að kláðinn sje í rjenun.

Það hefir verið mikið deilumál, hvort útrýmingarböðunin, sem framkvæmd var hjer á árunum, hafi verið á viti bygð. Jeg skal alveg leiða það mál hjá mjer, það eru aðrir menn, sem geta fengið að deila um það fyrir mjer. Hitt þykir mjer í meira lagi kynlegt, að hv. þm. Dal. (B. J.) skuli hafa tekið það ráð, að láta prenta eitt af þessum alþektu deiluritum, sem fylgiskjal við álit sitt í þessu máli. Jeg held því fram, hvað sem annars má um kláðamálið segja, að í þessu deiluriti sje farið alt of hörðum orðum um O. Myklestad og framkomu þingsins. Jeg hefi sjálfur sjeð herra Myklestad gjöra tilraun á kláðakind, sem var alveg útsteypt í kláða, og læknaðist hún algjörlega með einni böðun.

Jeg skal ekki lengja umræðurnar, en einungis bæta því við, að nefndin ræður deildinni til að fella þetta frumv. af þeirri ástæðu, að útrýmingarböðunin hefir mikinn kostnað í för með sjer, en óvíst að hún komi að notum. Aftur er líklegt að hægt sje að lækna kláðann á nokkrum tíma, án þess að taka þurfi til útrýmingarbaðanna um land alt á landssjóðs kostnað.