23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Sveinn Björnsson:

Jeg skal ekki fara út í langar þrætur um þetta mál.

Jeg get ekki sjeð, að þetta, sem hv. 1. þm. Árn. (S. S.) var síðast að tala um, í sambandi við dagskrána, sje rjett. Jeg get ekki litið á það sem neina gildru, þótt menn beri fram slíka dagskrá. Hitt er auðvitað, að þeir, sem samþykkja dagskrána, þeir hafa ráðið við sig, að greiða atkvæði með styrkveitingunni í fjárlögunum.

Annars ætlaði jeg að lýsa því, hvernig á því stendur, að jeg er þess fýsandi, að þessi fjárveiting nái fram að ganga. Þegar bókin »Vit og strit« kom út, þá las jeg hana með athygli, og sá þá þegar í stað að hjer var um mjög merkilegt mál að ræða. Og mjer þótti það svo merkilegt, að jeg fjekk mjer þegar í stað, ýmsar af þeim bókum, sem mögulegt var að ná í hjer á landi um málið, og kynti mjer það eins rækilega og kostur var á. Og jeg get sagt það með sanni, að mjer hefir alt af fundist málið merkilegra og merkilegra, eftir því sem jeg hefi kynst því meira. Jeg er ekki í neinum vafa um, að með rjettum aðferðum er hægt að margfalda svo vinnukraft manna, að stórkostlegur ávinningur verði. Auðvitað er það svo, að í öðrum löndum, þar sem vinnuskiftingin er komin á mjög hátt stig, þar er meiri von um árangur, en það er ekki loku skotið fyrir það, að hjer geti þessar rannsóknir líka komið að gagni. Jeg gæti t. d. nefnt flatningsmenn á togurunum. Jeg er ekki í neinum vafa um það, að mikið gagn gæti orðið af slíkum rannsóknum, sem þessum, til þess að bæta alment vinnubrögðin við það starf.

Eitt verð jeg að taka fram, áður en jeg setst niður, og það er það, að mjer varð það þegar ljóst, er jeg hafði kynt mjer þetta mál, að einn maður getur ekki framkvæmt allar þær rannsóknir, sem með þarf í þessu efni. Til þess, að slíkar rannsóknir komi að fullu gagni, þurfa margir menn að vinna saman. Mjer varð það þegar ljóst, að ekki er hægt að búast við því, að þessi maður, sem hjer er um að ræða, framkvæmi allar þær rannsóknir, sem með þarf, en hitt varð mjer einnig ljóst, að ef við ættum nokkuð að komast áleiðis í þessu efni, þá verðum við að byrja á sálarfræðingi, sem auk þess hefir áhugann til að hvetja hjer til framkvæmda.

Jeg þarf ekki að geta þess, að mjer er það fyllilega ljóst, að starfssvið sje hjer á landi fyrir sálfræðing til að rannsaka vinnubrögð manna. Jeg mintist áðan á flatningsmenn á togurunum. Þeir eru, eins og menn vita, mjög misjafnir. Ef jeg færi nú til einhvers flatningsmanns, sem væri afburða verkmaður, og bæði hann að kenna mjer, þá er mjög undir hælinn lagt, að hann gæti gjört það, svo nokkur mynd væri á. Aftur gæti sálfræðingur, sem sæi hann vinna, með þeirri vísindalegu aðferð, sem hann kann, leyst upp handtökin og gjört grein fyrir því, svo allir gætu skilið, í hverju það lægi, að þessi maður væri meiri verkmaður en aðrir, og hann gæti þá fundið handtök, sem væru óþörf, lagt til að sleppa þeim o. s. frv. og aukið með því verk mannsins enn meir.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en einungis verð jeg að vona, að háttv. þing horfi ekki í skildinginn, þegar von er um að margfalda framleiðsluna í landinu.