23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Guðmundur Eggerz:

Það er nú skárri skothríðin, sem dunið hefir yfir mig, síðan jeg talaði síðast. Það er gleðilegt fyrir mig, að ekkert skuli hafa verið hrakið, af því, sem jeg hefi sagt um þetta mál.

Háttv. þm. Dal. (B. J.), grískudocentinn og Dauðastundarskáldið, brigslaði mjer um heimsku. Sá má nú frómt úr flokki tala! Hann bunar um öll mál, sem koma fyrir hjer í deildinni og talar um hrafna, kerlingar o. s. frv., en hann gleymir ósjaldan málinu sjálfu. Jeg hefi sjeð reiknað út, að ef allir töluðu jafn lengi og hann, þá yrðu þingtíðindin 58000 bls. Það yrði falleg súpa!

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) hlakkaði til að sjá dr. Guðmund Finnbogason í skurðgrefti. (Guðmundur Hannesson: Hve nær hefi jeg talað um það?). Hann um það, til hvers hann hlakkar, en það er nokkuð dýrt að skemta háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.).

Sami háttv. þm. brá mjer einnig um heimsku. Er það ekki sami maðurinn, sem fór í vetur til Danmerkur og sagði Danskinum frá íslenskum smalamanni, sem hefði ætlað að drepa kónginn. Finst honum það ekki vera viturlegt?

Þegar háttv. framsögum. (G. H.) flutti þetta frumv., þá hjet það svo, að það væri hagnýt sálarfræði, sem ætti að kenna. Síðan hefir hann fallið frá því, og nú eru það bara verkleg efni, sem um er að ræða. Það eina, sem hann fann að mínum rökum, var það, að jeg hafði gleymt að geta þess, að eitt orð í nál. var með skáletri. Það var orðið »alment«, en það breytir ekki neitt meiningunni.

Þessir herrar, sem auðsjáanlega ætla sjer að greiða atkvæði með þessum styrk í fjárlögunum, geta nú ómögulega greitt atkvæði með stofnun kennaraembættis við Háskólann, eins og upphaflega var til stofnað hjá þeim. Það hefði þó verið miklu hreinlegra af þeim, en nú sjá þeir sjer það ekki fært og ætla því að fara þá leiðina, að smeygja þessum styrk inn í fjárlögin, til að standa þar alt af síðan, hvað lengi sem maðurinn lifir. Jeg vona, að hann lifi góðu lífi í 150 ár, og verð jeg að ætla það víst, að ef hann kemst inn í fjárlögin nú, þá muni hann standa þar alla þá tíð. Það mun fara líkt og um skáldastyrkina, að menn munu segja, að það sje synd að taka þá af, úr því að þeir einu sinni sjeu komnir í fjárlögin. Þetta er ekki annað en veiðibrella, til að narra okkur heimsku mennina til að greiða atkvæði í kvöld með þessum styrk í fjárlögunum.

Það er undarlegt, að um daginn, þegar þetta frumvarp kom fyrst til umræðu, þá voru menn að tala um, að þetta embætti ætti að stofna aðallega til þess, að maðurinn færi út um land, til að kenna bændum, fiskimönnum og verkamönnum að búa, róa og vinna. En hvað sagði svo háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) áðan? Hann ætlast til, að þessi 6000 kr. maður fáist ekkert við að leiðbeina bændum og fiskimönnum, heldur eigi aðalhlutverk hans að vera það, að kenna mönnum að vinna að vegalagningu. Þetta er þá orðið úr þessari fjárveitingu. En jeg hygg, að við eigum mörgum mönnum á að skipa, sem betur sjeu fallnir til að kenna mönnum að leggja vegi, heldur en þessi góði heimspekingur. Landið á marga góða verkstjóra, sem eru þessari vinnu þaulvanir, og jeg hygg, að það muni vera flestum ljóst, ef annars er talin þörf á því, að fela sjerstökum manni umsjón með allri vegagjörð á landinu, að t. d. Jón landsverkfræðingur Þorláksson væri miklu hæfari til að hafa það starf á hendi, heldur en hvaða heimspekingur sem er. Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) er kominn í þær ógöngur í þessu máli, sem hann kemst ekki út úr aftur.

Jeg ætla nú að ljúka máli mínu, en af því að háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) bar mjer á brýn, að jeg greiddi atkv. öðruvísi en jeg talaði, þá vil jeg út af því segja nokkur orð. Mjer finst það sitja illa á honum, að koma með slíkar ákúrur, og skal jeg leyfa mjer að benda á framkomu hans sjálfs í þessu efni. Þar sem hann mintist á Jökulsárbrúna, þá var jeg henni að vísu fylgjandi, en jeg tók það skýrt fram, að jeg vænti þess, að stjórnin rjeðist ekki í að byggja þessa brú, nema fjárhagurinn reyndist góður. Jeg verð að segja, að jeg hefi svo mikla tiltrú til stjórnarinnar, að jeg er viss um, að hún ræðst ekki í að byggja þessa brú, ef landssjóður stendur sig ekki við það. (Guðmundur Hannesson: En vitarnir?) Hann sagði, að jeg hefði greitt atkvæði með vitunum, en hann gat ekki um það, að jeg sagðist ætla að koma með brtt. til að vega þar í móti, um að Langadalsvegur í Húnavatnssýslu yrði feldur niður, með því að jeg tel hann með öllu óþarfan. Það er mikill munur á því, hvort tekjuhallinn myndast fyrir vita eða fyrir »humbug«. Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H,) ætti ekki að vera að bregða öðrum um, að þeir greiði atkvæði í mótsetningu við það, sem þeir tala. Hjá mjer hefir ekki komið fram nein slík mótsetning. En hann hefir sjálfur skrifað mikið og skrafað, og er ekki æfinlega sem best samræmi þar í milli. Hann þykist vera stjórnmálamaður, og víða má sjá skrifin hans. Jeg datt hjer niður á ritgjörð eftir hann í Búnaðarritinu, því alstaðar ræpir hann. Hann segir þar:

»Það tala nú allir um stjórnarskrána, ráðherrann og konunginn. Alla fýsir að vita, hvað um stjórnarskrána verður, hvort hún fæst í þetta sinn eða ekki«.

En svo segir hann:

Það er sjálfsagt til skammar fyrir þingmann að segja það, en það er þó svo, að mjer leikur miklu meiri forvitni á að vita:

Hvernig reynist húsið á Fremsta- Gili?

Þetta þykja mjer hjákátleg orð úr munni manns, sem þykist vera stórstjórnmálamaður.