23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Jón Magnússon:

Það hefir verið ráðist á nefndarálitið, og jeg skil vel hvers vegna það hefir verið gjört. Menn eru orðnir því svo vanir, að nefndarálit sjeu ekkert annað en prókúratorainnlegg, þar sem að eins er tekið fram það, sem mælir með málunum, en gengið fram hjá hinu, sem á móti mælir. Skrifari nefndarinnar hefi ekki farið þenna veg, og þess vegna er ráðist á nefndarálitið, Annars var því alveg umsnúið, sem í nefndarálitinu stendur. Það ætti að teljast kostur á nefndarálitum, að þau reyndu að skýra málið frá öllum hliðum. Ef menn lesa álitið með athygli, munu menn sjá, að sumir í meiri hlutanum vildu stofna nú þegar kennaraembætti við Háskólann, en aðrir vildu reyna fyrst, hvort von væri um veruleg not af því, sem er aðalatriðið í þessu máli. Um þenna skoðanamun náðist þó samkomulag hjá meiri hluta nefndarinnar, og er ekki óeðlilegt, að það komi fram í nefndarálitinu.

Skrifari nefndarinnar hefir svarað háttv. 2. þingm. S.-Múl. (G. E.), og fer jeg ekki frekar út í það.

Það hafa fleiri en einn háttv. þingm. ráðist á dagskrána fyrir það, að hún bindi menn, ef samþykt yrði. En mjer er öldungis óskiljanlegt, hvernig háttv. þingm. geta ætlast til þess, að við getum ráðið til að horfið sje frá frumv., nema á þennan hátt. Við leggjum ekki til, að frumv. verði felt með rökstuddri dagskrá, nema í þeirri von, að veitingin verði tekin upp annarstaðar. Það er ekki nein gildra, því að jeg get ekki hugsað mjer, að neinn háttv. þingm. sje svo skyni skroppinn, að hann átti sig ekki á því, að með því að greiða atkvæði með þessari dagskrártillögu, verður erfitt að greiða atkvæði á móti upphæðinni í fjárlögunum. Það getur víst enginn látið sjer detta í hug, að halda annað, eins og háttv. samþingsmaður minn hefir svo ljóslega tekið fram.

Það er einhver að tala um, að »agitationir« væru nú farnar að gagna svo langt, að jafnvel þingnefndir væru farnar að »agitera«. Hvers vegna skyldi þingnefnd ekki geta mælt með því máli, sem hún álítur gott? Hvað getur verið á móti því? Það er frá mínu sjónarmiði ekkert annað en skylda hennar.

Jeg held, að það hafi verið háttv. 2. þingm. S.-Múl. (G. E.), sem var að tala um, að það væri verið að draga persónu ákveðins manns inn í þetta mál. Hvernig í ósköpunum er hægt að komast hjá því, þegar verið er að tala um, að veita styrk til ákveðins starfa, og meiri hlutinn trúir sjerstaklega þessum manni til að framkvæma verkið? Þar við bætist, að þetta er einmitt sá maðurinn, sem fyrstur hefir tekið málið upp. Það er ekki hugsanlegt, að þessi styrkveiting hefði fengið eitt atkvæði, ef hún hefði ekki einmitt verið bundin við persónu þessa manns. Það er sjálfsagt rjett, sem segir í nefndarálitinu, að þessi vinnuvísindi sjeu fremur ung. Það er reyndar nokkuð langt síðan farið var að nota vísindi til að lagfæra vinnubrögð, en svona lagað býst jeg við að málið sje fremur ungt. En það getur verið jafn gott fyrir því. Við þurfum ekki endilega að bíða eftir því, að alt gott og nytsamt sje orðið gamalt, til þess að taka það upp hjá okkur.

Háttv. 2. þingm. Rang. (E. P.) talaði um, að með því, að hverfa frá að stofna embættið við Háskólann, væri málið búið að missa sinn vísindalega blæ. Þetta segir hann af því, að hann skilur ekki, hvað hjer er um að ræða, og á því sama hefir breytt hjá öllum, sem í móti hafa mælt. (Eggert Pálsson: Það er þá ekki til neins að vera að leggja málið fyrir okkur). Það er að vísu ilt, að þurfa að leggja málið fyrir þá menn, sem ekki hafa vit á því, en það verður ekki við það ráðið. Nefndin hefir einmitt haft það fyrir augum, að þessi maður ætti að gjöra vísindalegar rannsóknir. (Guðmundur Hannesson: Það er líka ekki hægt að líta öðru vísi á). Það hefir víst engum nokkurn tíma dottið í hug, að dr. Guðmundur Finnbogason eigi að fá þenna styrk til þess, að vera verkstjóri við vegavinnu, eða til þess, að kenna mönnum að slá og róa, eða til þess, að sýna botnvörpungunum hvernig þeir eigi að vinna o. s. frv. Hann á að athuga vinnubrögðin, leysa upp frumatriði vinnunnar, athuga lagni manna og láta síðan þá, sem lagnastir eru, kenna út frá sjer. En jeg skal nú ekki fara lengra út í að skýra verkefnið enda hefir háttv. samþingsmaður minn lýst því svo nákvæmlega.

Vísindalegt getur starfið verið, alveg eins fyrir því, þótt ekki sje það bundið við Háskólann. Jeg skil ekki í því, að þeir menn, sem eru hikandi í þessu máli, skuli ekki fremur vilja fara þessa leið og sjá, hvernig það reynist, áður en farið er að stofna nýtt embætti fyrir fult og alt við Háskólann. Reynist starf Guðmundar Finnbogasonar nýtilegt og gott, þá er sjálfsagt að halda áfram að styrkja það, en fari svo, að mönnum sýnist það ekki bera árangur, þá er vitanlega jafn sjálfsagt að fella það niður. En ef það ber árangur, verður það aldrei fullborgað með 3000 kr. á ári.

Svo er verið að tala um, að þetta sje bitlingur. Það er undarlegt, að menn skuli geta komist að þeirri niðurstöðu, því að jeg býst við, að dr. Guðmundur Finnbogason hafi ekki minni árstekjur nú, heldur en hjer er farið fram á að veita honum. Hann sækir ekki um þetta sem bitling, heldur af því, að hann býst við, að þessar tilraunir sínar geti orðið landinu að gagni. Hann er ákaflega duglegur maður og kunnur að því, að vilja gjöra gagn og láta gott af sjer leiða. Þess vegna álít jeg það mjög illa ráðið, ef þingið skyldi ekki vilja gjöra þessar tilraunir. Hefðum við haldið háskólaembættinu fram, þá gæti jeg trúað því, að þeir menn, sem nú mæla í móti styrknum, hefðu sagt, að ef um styrk í fjárlögum væri að ræða, þá skyldu þeir vera með.

Jeg skal nú ekki tefja tímann lengur. Jeg hafði ekki búist við, að það yrðu svona miklar umræður um málið nú, en fyrst svo er orðið, vona jeg, að ekki þurfi fjarskalega langar umræður um það við fjárlagaumræðuna í kvöld.