23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Ráðherra:

Jeg hefi ekki hugsað mjer að blanda mjer inn í deilur manna um þetta málefni, en jeg ætla að eins að víkja máli mínu að þeirri rökstuddu dagskrá, er hjer liggur fyrir frá meiri hlutanum.

Jeg fæ ekki sjeð, að það sje neitt óþinglegt eða athugavert við dagskrána. Jeg skoða það þannig, að meiri hlutinn hafi komið með hana vegna varfærni; honum hafi þótt varhugavert að stofna embætti í þessari grein, þar sem vinnuvísindi svo nefnd eru hjer svo að segja óþekt, nema af ritgjörðum dr. Guðm. Finnbogasonar.

En hins vegar hefir meiri hlutanum þótt varhugavert að skella algjörlega skolleyrunum við þessu máli og viljað því sýna einhvern lit á því, að gjöra eitthvað fyrir það. Hann hefir búist við, að almenningur vildi ekki, að stofnað væri fast embætti, en á hinn bóginn fundist rangt eða varhugavert, að taka ekki erindið að einhverju til greina.

Þess ber og að gæta, að fjárveiting sú í fjárlögunum, er meiri hlutinn ætlast til að veitt verði, er ekki í rauninni nema 4800 krónur, því að meiri hluti nefndarinnar ætlaðist til þess, að sá 600 króna styrkur, er dr. Guðmundur Finnbogason hefir haft árlega til ritstarfa, falli burtu, ef fjárveitingin verður samþykt.

Dagskráin beinir því bæði til Alþingis og stjórnarinnar, að hann fái lausn frá því starfi, er hann hefir nú með höndum, og sjeð verði um, að annar maður sinni því næsta fjárhagstímabil, þó þannig, að dr. Guðmundi Finnbogasyni standi opinn aðgangur að því að þeim tíma liðnum, ef fjárveitingarvaldið sjái sjer ekki fært, að láta hann hafa þennan styrk áfram, sem hjer ræðir um. Jeg býst við því, að hægt sje að fá færan mann, til þess að gegna þessu starfi í næstu tvö ár, með því skilyrði, að hann láti af því, ef svo vill verkast. Það er títt annarstaðar að slíkt fáist, og því ætti ekki að vera meiri vandkvæði á því hjer.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) þótti dagskráin athugaverð, og taldi að rjettara hefði verið, að halda fram frumvarpinu, með því að þá hefði Háskólinn fengið starfskrafta mannsins óskifta. Háttv. þingm. verður þá vonandi með frumv., ef dagskráin fellur, því að þá kemur það til atkv.

Háttv. samþingism. minn (S. S.) fann mjög að því, að þingnefnd beitti »agitation« í þessu máli. Satt að segja skil jeg þetta ekki. Það er mjög algengt, að heilar þingnefndir komi fram með frumvörp og tillögur fyrir aðra; þær hafa oft gjört það fyrir mig, t. d. hefi jeg átt slíka samvinnu við háttv. landbúnaðarnefnd, sem háttv. samþingism. minn er í. Og ef nefnd kemur fram með eitthvað það, sem hún telur þarft og gott, hví skyldi hún þá eigi mega reyna að sannfæra samþingismenn sína um það. Það væri vanræksla af henni, ef hún gjörði það ekki. Og þar sem talað er um, að dagskráin sje nokkurs konar gildra eða veiðibrella, þá skil jeg það ekki heldur, því að hún þyrfti að vera alt öðru vísi en hún er til þess. Hún er einmitt svo ótvíræð, að á henni verður ekki vilst, en gildra gæti hún því að eins verið, að hún væri loðin. Þeir, sem greiða atkvæði með henni, hafa með því lýst skýlaust yfir því, að þeir ætli sjer að verða með fjárveitingunni, sem hún gjörir ráð fyrir, þegar þar að kemur. Um það er ekki að villast fyrir þá, sem vita hvað þeir eru að gjöra, og það býst jeg við að allir háttv. deildarmenn gjöri í þessu máli.

Um hitt, hvort þessi tilraun muni koma að tilætluðum notum, getur aftur á móti verið vafi. Úr því verður tíminn að skera, og af því að hann hefir ekki skorið úr því enn, þá hefir háttv. meiri hluti ekki sjeð sjer fært að leggja til að stofna þessa nýju stöðu.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) fann að því, að Háskólinn sje sviftur starfi þessa manns, en það er ekki rjett. Eða hvar stendur það skrifað, að hann megi ekki halda fyrirlestra við Háskólann, eins fyrir það, þótt hún verði samþykt? Maðurinn hefir »veniam docendi«, með því að hann er doktor, og jeg tel líklegt og líka æskilegt, að hann haldi þar fyrirlestra á vetrum um einstök atriði í fræðigrein sinni, og þá ef til vill um leið um væntanlegar rannsóknir sínar, svo að það er misskilningur, að það sje tilætlunin með þessu, að strika bann út úr heimi vísindanna. Líka mætti setja það skilyrði fyrir fjárveitingunni, að hann hjeldi fyrirlestra, og efast jeg ekki um, að honum myndi vera það mjög ljúft.