23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Benedikt Sveinsson:

Það munu nú flestir vera á einu máli um það, að samþykkja ekki frumvarp það, sem hjer liggur fyrir, en hins vegar munu vera skiftar skoðanir um dagskrána, og setja sumir það fyrir sig, hvernig hún er orðuð. Sumir halda því fram, að hún sje nokkurs konar brella, og sje ekki rjett að greiða nú þegar atkvæði um það, sem eigi heima í fjárlögunum. Skilst mjer sem þeir, sem eru á móti frumv., sjeu ekki vissir um hvernig þeir mundu þá greiða atkvæði, af því að þeim líkar ekki dagskráin heldur. En það er auðvelt að leysa úr þeim vanda með annarri rökstuddri dagskrá, þar sem svo sje til stilt, að allir hafi óbundnar hendur þegar þar að kemur.

Skal jeg því með leyfi hæstv. forseta leyfa mjer að bera fram svo felda dagskrártillögu, sem borin verði upp að umr. lokinni:

Með því að mál þetta liggur fyrir í fjárlagafrumv. í dag, og þá veitist nýtt tækifæri til þess, að ræða það, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.