24.08.1915
Neðri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

74. mál, skipun prestakalla

Framsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Jeg hygg að ekki sje þörf á löngum umræðum um þetta mál. Eins og menn vita, hafa svipuð frumv. um fjölgun prestakalla, áður verið á ferðinni hjer í þinginu, en aldrei fengið neitt verulegt fylgi. Jeg skil ekki í því, að þinginu hafi snúist svo hugur, að það vilji nú fara að fjölgu prestaköllum. Hins vegar get jeg vel skilið það, að háttv. flutningsmenn þessara beggja frumv. um þetta efni, sem hjer eru á dagskrá í dag, hafi viljað gjöra það fyrir söfnuðina í kjördæmum sínum, að leggja málið fyrir þingið. En nauðsynin þarf ekki að vera brýn fyrir því. Þó að þessir söfnuðir sjeu fjölmennir, þá er það ekkert eins dæmi. Víða á landinu gæti komið til mála, að gjöra svipaðar breytingar, ef út á þá braut væri gengið. Jeg vil benda til dæmis á Hofsprestakall í Vopnafirði. Það er stórt og fólksmargt, og þolir vel samanburð við þau prestaköll sem hjer um ræðir. (Stefán Stefánsson: Nei, það er mjög ólíkt).

Sú ástæða háttv. minni hluta, að vegna samsteypunnar sjeu ýmsir söfnuðir sviftir lögákveðnum rjetti til að kjósa sjer prest, er ekkert eins dæmi. Þetta nær til safnaða út um alt land. (Stefán Stefánsson: Það er ekkert betra fyrir það).

Háttv. framsm. minni hl. (St. St.) gat þess, að algjörður skoðanamunur væri á milli meiri og minni hluta nefndarinnar. Það mun rjett vera. Má það best marka á því, að háttv. framsögum. minni hl. (St. St.) sagðist vera andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju, en aftur kemur það glögglega fram í áliti meiri hlutans, að hann telur þá hreyfingu tímabæra.

Jeg stend við það, sem sagt er í áliti meiri hl., að allmikil brögð sjeu að því, að kirkjur sjeu illa sóttar yfirleitt. Og þar sem svo er ástatt, er ekki ástæða til að fara að fjölga prestaembættum. Háttv. framsm. minni hl. (St. St.) sagði, að ekki þyrfti að fara saman kirkjusókn fólksins og erfiðleikarnir við að sækja kirkju. Þetta er hverju orði sannara. Það fer alveg eftir hugsunarhætti fólksins. Kirkjurækið fólk setur ekki fyrir sig, þó það eigi langt til kirkjunnar. Það er því ekki þörf á að fjölga prestaköllum af þeirri ástæðu.

Meiri hl. nefndarinnar hefir bent á læknahjeruð landsins til samanburðar. Virtist það ekki fjarri sanni, þar sem um jafn nýta starfsmenn fyrir þjóðfjelagið er að ræða og læknarnir eru að allra rómi. Á þeim samanburði sjest, að kleift er að þjóna stóru svæði, ef um starfhæfa menn er að ræða.

Háttv. framsm. minni hl. (St. St.) vildi bera á móti því, að nokkur brögð væri að því, að prestsetrin út um landið væru að lenda í niðurníðslu. Sagði hann að ástandið væri ekki verra en áður í því efni. Jeg er þó hræddur um að svo sje. Vitanlega hefi jeg ekki yfirlit yfir landið alt, en þar sem jeg þekki til, er mjer kunnugt um, að sum prestsetrin eru hörmulega illa setin. Jeg held að svo sje síðan prestarnir komust á landssjóðinn, að þeir hafi minni hvöt til að stunda búskapinn. Enda hefir búskapur verið erfiður undanfarið, vegna vinnufólkseklu o. fl., og hefir það komið niður á prestunum eins og öðrum. Það má líka segja, að það sje fyrir utan verkahring prestanna, að vera með allan hugann við þau störf. Það sje ekkert samræmi í því, að sökkva sjer niður í búskap og stunda prestskap með áhuga.

Viðvíkjandi því nána sambandi milli presta og safnaða, sem háttv. framsm. minni hl. (St. St.) lagði svo mikla áherslu á, verð jeg að segja, að ekki sje mikið komið undir því, að prestaköllin sjeu smá, ef annað brestur ekki, sem til þess nána sambands heyrir. Áhrif prestanna á æskulýðinn eru nú mikið að minka. Nú eru barnaskólar um alt land. Fræðsla barnanna er í höndum skólakennarana. Starf prestanna því viðvíkjandi, er ekki fólgið í öðru en að prófa börnin í kristnum fræðum. Jeg sje ekki, að það sje svo umfangsmikið starf, að prestunum sje það ofvaxið, þó að prestaköllin sjeu nokkuð stór, ef þeir hafa þann áhuga á köllun sinni sem vera ber.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um málið. Jeg held að sjálfsagt sje að fella frumv. samkvæmt þessari stefnu, sem ráðið hefir á undanfarandi þingum.