24.08.1915
Neðri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

74. mál, skipun prestakalla

Framsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Háttv. þingm. Snæf. (S. G.) hafði ýmislegt að athuga við nefndarálit meiri hlutans.

Hann sagði, að það liti illa út, að hafa þá aðferð, sem meiri hl. vildi hafa, að murka lifið úr þjóðkirkjunni með því, að neita mönnum um allar breytingrar á skipun prestakallanna. Jeg held, að þetta sje ekki rjett álitið hjá honum. Það verður aldrei þjóðkirkjunni að falli. Jeg held einmitt, að menn sætti sig helst við þjóðkirkjufyrirkomulagið, ef prestaköllunum væri jafnvel fækkað úr því, sem nú er. Meðan það kostar jafnmikið og nú, að hafa gamla fyrirkomulagið, verða menn síóánægðir með það. En ef hægt væri að draga úr kostnaðinum, mundu menn miklu fremur sætta sig við það. Það er því algjörlega rangt hjá háttv. þingm. (S. G.), að meiri hl. sje að gjöra gyllingar, til þess að drepa þjóðkirkjuna.

Sami háttv. þingm. (S. G.) hjelt því fram, að mótsögn væri í nefndaráliti meiri hl., þar sem í því stæði, að skifting prestakallanna rýrði tekjur prestanna og drægi huga þeirra að búskap og öðrum veraldlegum störfum, en jafnframt væri kvartað undan því í nefndarálitinu, að prestar vanræktu búskapinn og níddu jarðir sínar. Þetta vil jeg skýra nánar. Það vakti fyrir meiri hl., að því fleiri, sem prestaköllin væru, því tíðari yrðu prestaskiftin. Prestar eru eins og aðrir menn, að þeir vilja flytja þangað, sem betri laun bjóðast. Nú er það fullkunnugt, hvað jarðirnar fara illa á þessum endalausu ábúendaskiftum. Ár og ár fæst ef til vill enginn til að búa á þeim, nema ef til vill einhver sá, sem annað hvort hirðir ekki um, að sitja þær almennilega, eða getur það ekki. Það eru hreinustu vandræði, hvernig margar ágætar jarðir hafa drabbast niður á þenna hátt. Þetta átti meiri hlutinn við, að hætt væri við, að prestarnir sætu jarðirnar ver, ef þeir hefðu minni verkahring.