05.08.1915
Neðri deild: 25. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

79. mál, hvalveiðamenn

Flutnm. (Skúli Thoroddsen):

Jeg hefi leyft mjer að bera fram. frv. það, er hjer um ræðir, eftir ósk nokkurra manna í kjördæmi mínu, og fer það í sömu átt, sem erindi, er legið hefir frammi á lestrarsal Alþingis, — fer fram á, að lögin um bann gegn hvalveiðum komi ekki til framkvæmdar í bráð, að því er kemur til hvalveiðastöðvarinnar á Hesteyri í Jökulfjörðum. En hvalveiðastöðin á Hesteyri í Jökulfjörðum er — þ. e. nú orðið — eina hvalveiðastöðin, sem notuð er hjer á landi, enda gjöra lögin frá 22. nóv. 1913 svo ráð fyrir, að hvalveiðar fari hjer ekki fram eftir 1. okt. þ. á. (þ. e. 1915).

Nú er svo ástatt í Jökulfjörðum, þ. e. í Grunnavíkur- og Sljettuhreppum í Norður-Ísafjarðarsýslu, að menn eru þar fátækir, og fáir, er bjargálnamenn geta talist. — Fyrir utan lítilfjörlegan landbúnað, sem stundaður er í Jökulfjörðunum, lifa menn þar aðallega á sjávarútvegi, sem stundaður er þar æ að vorinu, og seinni hluta sumars, er heyönnum er lokið, og fram yfir veturnæturnar. En á seinni árum hefir afli mjög brugðist í Jökulfjörðum, og kenna menn það og eigi þá hvað síst vjelabátum úr vestanverðu Ísafjarðardjúpi, sem á sumrin flykkjast þar inn í firðina, meðan bændur geta ekki sint fiskveiðum, vegna heyskaparins, og öngla á skömmum tíma upp fiskinn, sem inn í Jökulfirðina er þá genginn. — Og þegar svo hjeraðsmenn geta farið að sinna fiskveiðum, þá er fiskurinn að mun horfinn.

Svona er greint frá þessu í skjölunum, er legið hafa frammi á lestrarstofu Alþingis, og á þessa leið sagðist gagnkunnugum mönnum verstra frá, og mönnum þar úr bygðarlaginu, er jeg átti mjög nýlega tal við.

En í þessum vandræðum hefir nú hvalveiðastöðin á Hesteyri (forstöðumaður hr. Vaagen) reynst mönnum æ sannur bjargvættur. Menn hafa fengið þar hvalkjöt ókeypis, er bæði hefir verið notað til manneldis, sem og til skepnufóðurs. Það væri mönnum þar vestra stór tjón, ef þessara hlunninda misti nú við, sjerstaklega þar sem nú er almenn dýrtíð, sem kunnugt er, og aflaleysið sama, sem fyrr, enn þar í fjörðunum.

Í brjefinu, er liggur frammi á lestrarsal Alþ., þá er þess og getið, að menn óttist jafnvel hungur, og að eigi verði hjá því komist, að taka verði ella hallærislán, ef leyfi þetta fæst ekki.

Um þetta segir meðal annars, í áskorunarskjalinu til Alþingis:

»Sveitarþyngsli vaxa hjer nú eins og víðar, en efni og gjaldþol þverra, og eigi annað sjáanlegt en hallærislán verði að taka á næsta hausti, ef ekki aflast, til að forða fólkinu frá hungri.«

Jeg vona því að þingið taki vel í þessa málaleitan, enda skiftir þetta landið í heild sinni og ekki miklu, þar sem hjer er að eins um eina hvalveiðastöð að ræða.

Að öðru leyti hygg jeg, að málið sje svo ljóst og auðskilið, að óþarft sje, að það gangi í nefnd, enda ákjósanlegt, að afgreiðsla þess gæti og gengið sem greiðlegast.