25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

79. mál, hvalveiðamenn

Framsögum. minni hl. (Guðm. Eggerz):

Þetta mál hefir komið svo oft til umræðu, að jeg þarf ekki að vera orðmargur. Ef þetta frumv. verður samþykt, þá má heita að hvalafriðunarlögin sjeu upphafin.

Eins og vita mátti, hafa friðunarlögin átt erfitt uppdráttar. Sjómannastjettin hefir staðið á bak við þau, en hvalveiðamennirnir auðvitað viljað óðir og æfir fella þau. Því var barið við 1913, að hvalveiðamennirnir mundu heimta skaðabætur fyrir atvinnumissi. Það hefir ekki orðið neitt úr því, að þeir sæktu það mál fast, þótt einn þeirra hafi reyndar farið fram á skaðabætur, enda var þessi viðbára vitanlega út í loftið.

Nú er komið með nýja ástæðu, en hún er sú, að Jökulfirðingar geti ekki verið án hvalveiðamannanna nú í dýrtíðinni.

Útsvör, sem þessir menn hafa borgað á Hesteyri, hafa ekki numið meira en 800 til 900 kr. síðustu ár, og ekki veit jeg til, að þeir veiti Íslendingum atvinnu, að minsta kosti gjörðu þeir það ekki, hvalveiðamennirnir á Austurlandi. Þar unnu einungis Norðmenn að hvalveiðum. Jeg skil það vel, að þessir hreppar vilji fá að halda hvalveiðamönnum, því að þar veiðist t. d. engin síld í lása. Aftur hagar öðru vísi til á Austfjörðum, þar veiðist oft síld í lása, stundum mörg þúsund tunnur í einu.

Af þessum ástæðum er mönnum fyrir austan mjög sárt um þessa veiði. Það kemur oft fyrir, að hvalirnir styggja síldina upp úr dýpinu, eins og jeg hefi tekið fram í nefndarálitinu. Á Reyðarfirði hefir það átt sjer stað, að menn hafa beðið í 12 daga, án þess að verða varir við síld. En þá komu 2 hvalir inn á fjörðinn og á samri stundu fyltust allir lásar af síld. Það er því skiljanlegt, að Austfirðingum sje mjög ant um þessi lög. Jeg skil ekki, að það geti verið nokkur ástæða til að fara nú að upphefja lögin frá 1913, vegna þessara tveggja hreppa.

Jeg skal benda á, að hjá Norðmönnum hefir hvalafriðunarmálið verið tekið til rækilegrar athugunar. Árið 1880 var sett nefnd þar í landi til að rannsaka fiskveiðar yfir höfuð og samband hvalveiðanna við þær. Aðalumsjónarmaður fiskiveiða Norðmanna, dr. Hjort, var á bandi hvalveiðamanna, en þorði þó ekki að fullyrða, að ekkert samband væri á milli hvalveiða og fiskveiða. En hvað sem því líður, þá varð endirinn sá, að þar í landi voru samþykt friðunarlög árið 1904, og hvalurinn friðaður í 10 ár. 1914 voru lögin svo framlengd.

Mjer skilst, að það sje rjett, að taka eftir, hvað nágrannaþjóðir okkar gjöra í þessu efni, en nema ekki aftur úr gildi lög, sem nýlega eru samin, bara vegna hagsmuna tveggja hreppa, þegar hagsmunir alls landsins eru á hina hliðina. Mjer þykir vera gjört of mikið úr Jökulfjörðunum, ef við eigum nú vegna þessara tveggja hreppa að fara að upphefja lögin frá 1913. Jeg segi, að upphefjalögin, því í rauninni er það gjört, ef þetta frumv., sem hjer liggur fyrir, verður samþykt. Nú er Hesteyrarfjelagið búið að veiða 40 hvali, það sem af er árinu, og gjöra má ráð fyrir, að það veiði annað eins, það sem eftir er ársins. Það verða því í árslok 80 hvalir. Ef veiðin gengur svipað næstu 3 árin, þá sjá allir, að það munar ekki svo lítið um þessa veiði, einkum þegar til þess er litið, að viðkoman er mjög lítil hjá hvölunum. Auk þess get jeg ekki skilið, hvernig þingið getur staðið sig við að neita öðrum mönnum, sem eiga hjer stöðvar, að reka hvalveiðar næstu 3 árin, ef það veitir þessu eina fjelagi undanþágu frá lögunum.

Að öðru leyti skal jeg geta þess, að þegar jeg talaði um þetta mál á þinginu 1913, þá var sagt, að það væri þýðingarlaust að vera að setja slík lög, því að það væri enginn hvalur til við strendur landsins. Ef það er rjett, sem mótstöðumennirnir hjeldu fram þá, skil jeg ekki, hvers vegna mönnum er svo ant um að samþykkja þessi lög nú.

Jeg vil ekki lengja umræðurnar meira, en vona, að frv. verði ekki látið ganga lengra. Það á ekki betra skilið en að verða felt frá 3. umr.