16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

128. mál, rjúpnafriðun

Flutningsm. (Jóhann Eyjólfsson):

Tilefnið til þess, að jeg hefi leyft mjer að bera fram þetta litla frumv., er það, að jeg álít, að það fyrirkomulag, að rjúpan sje alfriðuð 7. hvort ár, mjög svo óhagkæmilegt. Jeg hefi orðið var við, að mjög margir líta á þetta atriði sömu augum og jeg. Margir menn, bæði upp til sveita, og jafnvel í sjávarplássum hafa mikla atvinnu af því, að veiða rjúpur. Og þeir menn segjast þurfa að lifa 7. árið, engu síður en hin árin sex. Það er því mjög óþægilegt fyrir þessa menn, að vera á þennan hátt sviftir atvinnu sinni. Slík ráðstöfun er því mjög ónotaleg gagnvart þeim mönnum, og í alla staði óhyggileg. Þetta getur einnig haft illar afleiðingar fyrir rjúpnasöluna á útlendan markað, því viðskiftasambönd geta slitnað mjög óþægilega á þessu ári, sem enga rjúpu má veiða. Frumv. fer því fram á, að þessu heila friðunarári sje kipt í burtu. Með þeirri breytingu er þó ekki aukin ófriðun rjúpunar, því að friðunartími hennar er lengdur öll sex árin hin. Jeg vona að allir háttv. deildarmenn sjái, að þetta er heldur til bóta fyrir almenning. Sje jeg svo ekki ástæðu til að tala um þetta frekar, en treysti hinni háttv. deild til að skilja þessar ástæður.