16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

128. mál, rjúpnafriðun

Flutnm. (Jóhann Eyjólfsson):

Jeg bjóst ekki við löngum umræðum um þetta mál. En fyrst menn hafa farið nokkrum orðum um frumv. þetta, og fundist athugavert að samþykkja það, þá verð jeg að athuga ögn nánar þau atriði. Háttv. 1. þingm. Rang. (E. J.) hjelt því fram, að með þessu frumv. væri jeg að leitast við að ófriða rjúpuna. En ef hann athugar þetta nánar, hlýtur hann að sjá, að hjer er ekki um slíkt að ræða, heldur eykst friðunartíminn um nokkurn tíma árlega, sem vegur fyllilega á móti því, þó að rjúpan yrði ófriðuð 7. hvert ár.

Það er skoðað þannig af sumum, að jeg komi fram með þetta frumv. af drápgirni, og af veiðiskaparlöngun; en jeg hefi bent á, að það eru fjölmargir menn, sem lifa allmikið á rjúpnaveiði. Það væri því ilt fyrir þá menn, að vera sviftir þessum bjargræðisvegi sjöunda hvert ár, og eins teptust verslunarviðskifti á þessari vöru þau árin við önnur lönd, og það getur verið mjög athugavert.

Af þessum ástæðum virðist mjer miklu heppilegra, að stytta þann tíma árlega, er drepa má rjúpuna, en hafa hana þá ekki friðaða þetta áminsta ár. Mjer hefir heyrst það á háttv. deild, að frv. þetta ætti ekki að ganga fram, en ef háttv. deild athugar, að með þessu eru gjörðar umbætur á því fyrirkomulagi, sem nú er, þá ætti hún að samþykkja þetta litla frumv.

Annars get jeg ekki sjeð það, sem háttv. 1. þingm. Rang. (E. J.) þykist sjá, að rjúpan sje einskis virði. Rjúpan er góður matur, og svo fæst matur fyrir aurana, sem hún er seld fyrir, og hefir mörgum manninum orðið að góðu sá matur, sem fengist hefir fyrir þessa aura.