30.07.1915
Efri deild: 19. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

60. mál, vélgæsla á gufuskipum

Karl Einarsson:

Jeg á smá breytingartillögu við frumvarp þetta, er jeg vildi gjöra stutta grein fyrir. Eftir því sem nú er, hafa, að því sem mjer er frá skýrt, 20–30 menn leyfi til að vera vjelstjórar á skipum, er hafa hreyfivjelar með alt að 800 hestöflum, en þegar núgildandi lög voru samin, þá voru ekki sterkari vjelar til, og var því hámarkið þá ekki sett hærra. Flestir þessara manna, eða yfir 20, hafa tekið próf í vjelstjórafræði, en hins vegar munu kröfur þær, er gjörðar voru þá við prófið, vera minni en kröfur þær, er gjöra á við hinn fyrirhugaða vjelstjóraskóla. En auk þeirra munu það vera um 6 menn, er hafa verið vjelstjórar, án þess þeir hafi leyst próf, en hafa prófskýrteini; en aðgætandi er um þá, að þeir munu allir hafa reynst ágætlega vel í starfi sínu. Mjer finst það vera hart, ef þessir menn, er hafa allir leyst þetta starf vel af hendi, væru settir skör lægra en nýbakaðir lærisveinar frá þessum fyrirhugaða skóla, og því vil jeg, að þeir fái áfram að stunda verk þetta. Og hvað það snertir, að mennirnir væru ekki hæfir til starfans, þá er engin ástæða til þess að óttast það, því útgerðarmennirnir, sem ráða mennina, vinsa áreiðanlega þá úr, er þeir telja vel hæfa til starfans, því jeg skil ekki annað, en að allir útgerðarmenn eigi sammerkt í því, að vilja hafa bestu mennina, sem kostur er á, í þjónustu sinni. Jeg skal taka það fram, að til 3. umræðu er jeg fús á, til samkomulags, að bæta því við, að það skuli sjást á skírteininu sjálfu, að það sje gefið út samkvæmt þessari heimild í lögunum. (Eiríkur Briem: Viljið þjer þá ekki taka hana aftur og koma með hana breytta til 3. umræðu?) Jú, það get jeg gjarnan gjört, og vænti þá fylgis háttv. 1. kgk. þm. (E. B.). En það er ekki rjett, að orða þetta svo, sem forstöðumaður Stýrimannaskólans vill, að þessir menn hafi eigi tekið próf, því þeir hafa lokið prófi, þótt það sje lítilfjörlegra en það, sem nú á að verða.

Úr því að jeg stóð upp, vil jeg vekja athygli á, að nefndin vill fella burtu b-lið í 8. grein frumvarpsins. Honum er ofaukið, því í honum felst að eins skilyrði vjelstjóraprófsins, sem krafist er í a-lið sömu greinar, og stendur í 4. gr. frumvarpsins um stofnun vjelstjóraskóla. Þetta hlýtur að vera komið inn af misgáningi, því ef það verður ekki lagfært, ætli nemandinn að hafa stundað járnsmíðar í tvisvar 3 ár eða 6 ár, í stað þess, að tilætlunin er, að hann stundi þær í 3 ár.