23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

128. mál, rjúpnafriðun

Pjetur Jónsson:

Jeg get ekki vel skilið rök háttv. þm. Ak. (M. K.) fyrir því, að háttv. deild væri í betra samræmi við sjálfa sig, ef hún samþykti þetta frumvarp en ef hún fellir það. Ef það er meiningin, að fitja upp á sama málinu aftur og hjer var á ferðinni fyrir skemstu, og sem jeg þá reyndar greiddi atkvæði með, þá kemur það algjörlega í bág við þingsköpin, að fara að ræða mál, sem einu sinni er búið að fella af þinginu, þó aldrei nema það komi fram í örlítið breyttu formi. En ef það er ekki, þá er um hitt að ræða, að breyta til frambúðar friðunarlögunum, sem samþ. voru í hitt eð fyrra hjer á þinginu, og nema nú friðunarár rjúpunnar úr lögum. Samþykti hv. deild þetta, þá verð jeg að segja, að jeg skil ekki í samræmi hennar við sjálfa sig.

Jeg heyrði, að hv. framsögum minni hlutans (J. E.) ber því við, meðal annars, að þessi eins árs friðun myndi hafa í för með sjer eyðileggingu á markaðinum. Jeg hefi nú í 20–30 ár fengist við útflutning og sölu á rjúpum, og hefi flutt út 10,000–20,000 á ári, og mjer er alsendis ókunnugt um það, að þetta friðunarár myndi spilla fyrir markaði íslenskrar rjúpu.

Á heimsmarkaðinum er selt svo mikið af fugli, að þess gætir ekki ýkjamikið, sem kemur frá Íslandi. Jeg held þess vegna, að þetta sje bara viðbára hjá hv. frsm. minni hl. (J. E.). Áður en þessi ársfriðun kom til, komu einmitt fram raddir um það, að rjettast mundi að alfriða rjúpuna í 5 ár samfleytt, svo hún gæti náð sjer fyllilega aftur. Þetta var þá miðlunarvegur, sem farinn var, að lengja friðunartímann eftir megni á hverju ári og svo að friða rjúpuna alveg eitt árið af hverjum sjö. Að fara nú að rífa þetta niður, er því að kasta burtu með annari hendinni, því sem gjört er með hinni, og jeg álít slíkt gutl fram og aftur hreinustu vanvirðu fyrir Alþingi. Færi nú svo, að frumv. yrði samþykt, þá er þó brtt. á þgskj. 360 til bóta, en rjettast held jeg væri að láta friðunartímann halda sjer óhögguðum frá því, sem samþykt var í hitt eðfyrra og gjört að lögum þá.