25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

128. mál, rjúpnafriðun

Framsm. minni hl. (Jóhann Eyjólfsson):

Það er svo langt síðan þetta mál var seinast til umræðu, að jeg er hálfbúinn að gleyma því, sem þá var sagt um það.

Það er náttúrlega talsvert álitamál, hve lengi þurfi að friða þessa fuglategund. Það var ekki heldur það, sem við gjörðum að kappsmáli. Það, sem minni hlutinn lagði áherslu á, var fyrirkomulag friðunarinnar, að það gengi jafnt yfir öll árin, og þóttist jeg færa ljós rök fyrir því í nefndarálitinu, að þessi friðun sjöunda hvert ár væri ranglát og skaðleg, sjerstaklega fyrir þá menn, sem atvinnu hafa af rjúpnaveiðum, þegar lítið er annað að gjöra, og eins vegna verslunarviðskiftanna út á við.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) andæfði því, að þetta hefði nokkur áhrif á verslunarviðskiftin og vitnaði til 20 ára reynslu sinnar á rjúpnasölu. Jeg ætla ekki að gjöra lítið úr verslunarreynslu hans, en benda vil jeg honum á það, að á þessum 20 árum hefir það aldrei komið fyrir, að einu og einu verslunarári væri kipt út úr. Jeg tek gjarnan tillit til þess, sem hann segir, en ekki þó meira í þessu efni, heldur en til þess, sem aðrir verslunarfróðir menn segja. Jeg tek líka tillit til þess, hvað mjer sýnist sjálfum, og enn fremur verð jeg, og það ættu aðrir líka að gjöra, að taka tillit til þess, hvað þetta þýðir fyrir þá menn, sem stunda þessa atvinnu. Það, sem mjer virtist vera aðalástæðan hjá honum á móti því að breyta lögunum, var það, að lögin eru ný og lítt reynd. Því miður hefir sá hugsunarháttur oft komið fram, að það megi ekki laga lög, af því að þau sjeu ung. Það var alment álitið, þegar þessi smíðisgripur sást fyrst í hjeruðunum, að hann væri ekki fallegri en svo, að það þyrfti fljótlega að laga hann. Jeg heyrði það jafnvel talað, að þingið skyldi hafa skömm fyrir gjörðir sínar í þessu efni. Þó eitthvert smíði sje nýtt, þá þarf að laga það, ef það er illa gjört, og sannast að segja, eru mörg verk, jafnvel frá þinginu, þótt þau sjeu nýlega af hendi leyst, á því óþroskastigi, að þau þurfa endurbóta með. Jeg skal ekki deila um það, hvort friðunartíminn sje of langur. Það er að eins fyrirkomulagið, sem jeg get alls ekki felt mig við. Til samkomulags myndi jeg ganga inn á, að friðunartíminn sje annað hvort aukinn eða færður til.

Mjer heyrðist á háttv. þm. S.-Þing, (P. J.), að það væri kann ske þörf á að friða rjúpuna enn lengri tíma, eða fleiri ár í einu. Jeg skil ekki, hvaða þörf getur verið á því, því að í þeim bygðarlögum, þar sem jeg þekki til, er ekki að sjá, að rjúpunni fækki, enda þótt töluvert sje drepið af henni árlega. Jeg man eftir því, að í harðindunum 1881–82 fækkaði rjúpunni mjög mikið. Þá fjell hún unnvörpum, en síðan hefir henni fjölgað aftur ár frá ári æ meira og meira. Það sjest best á verslunarskýrslunum, að verslunin hefir síðan alt af verið að aukast. Enda er áreiðanlega eins hægt um vik að veiða rjúpuna nú eins og áður. Mjer finst það vera gengið nokkuð nærri persónufrelsi þeirra manna, sem stunda þessa atvinnu, ef nú á að svifta þá henni ár og ár í bili. Það getur verið, að þeir, sem eiga við góð kjör að búa, skilji þetta ekki, en þeir, sem fyrir því óláni verða, að eiga við erfið kjör að búa og hafa unnið við það sjer til bjargar, að veiða rjúpur, skilja það þá því betur, hvað það er, að vera sviftir leyfi til að stunda atvinnu sína, eins og þeir hafa áður gjört.