25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

128. mál, rjúpnafriðun

Framsögum. meiri hl. (Guðm. Hannesson):

Jeg býst við því, að sjeu fleiri en jeg, sem ekki eru svo fróðir í þessu máli sem skyldi. Aðalatriðið er, hvort hætta sje á að rjúpunni fækki eða ekki. Það mun hafa vakað fyrir þeim, sem fuglafriðunarlögin sömdu, að hætta væri á því. Sje svo, er lítill efi á því, að það myndi draga drýgra, ef rjúpan væri alfriðuð eitt ár við og við.

Hvað verslunina snertir við útlönd, er þess að gæta, að íslenskar rjúpur eru ekki nema örlítill hluti af öllum þeim sæg fugla, sem þar koma á markaðinn. Það er lítil hætta á því, að hún gangi ekki út á erlendum markaði, Hvað mig persónulega snertir, er jeg ekki svo fróður um þessa hluti, að jeg geti mikla áherslu á þetta lagt. En annars þykir mjer líklegt, að efri deild felli þetta framv., ef það kemst til hennar. Þar var nýlega felt annað frv. líks efnis, og jeg tel víst, að þetta yrði látið fara sömu leiðina. — En hvað sem þessu líður, þá er það víst, að meiri hluta nefndarinnar sýndist ekki rjett að samþykkja þetta frumv. hjer í deildinni.