31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

39. mál, fátækralög

Frmsm. meiri hl. (Þorleifur Jónsson):

Jeg hygg það óþarft, að halda langa ræðu um þetta mál. Jeg vona, að nefndarálitið á þgskj. 576 skýri nokkurn veginn greinilega frá því, hvað fyrir meiri hluta nefndarinnar vakir. Háttv. Ed. hefir hallast að því, að stytta sveitfestistímann úr 10 árum í 5 ár. Meiri hlutinn álítur þessa breytingu á fátækralögunum til bóta. Öllum er það kunnugt, að fólk er mikið meira á reiki nú en áður — hefir styttri dvöl á sama stað. Þess vegna er það, að færri hlutinn vinnur sjer sveit nú, og endirinn verður sá, að menn lenda á fæðingarhreppi sínum. Meiri hlutinn lítur svo á, að ekki sje lengur ástæða til að hanga í þessu 10 ára tímabili, sem lögboðið var fyrir 80 árum, þar sem hagur þjóðarinnar hefir breytst svo mikið síðan. Það var öðru máli að gegna þá; menn fluttust þá ekki eins mikið milli sveita og nú. Í öðrum löndum eru ekki heldur dæmi til þess, að tíminn sje svo langur, eins og nú á sjer stað. Í Danmörku vinna menn sjer sveit á 5 árum og annarstaðar á styttri tíma. Ef þetta tímabil verður stytt um 5 ár, býst meiri hlutinn við, að talsvert af fólki staðnæmist svo lengi, að það geti unnið sjer sveit. Persónulega hallast jeg að því, að tíminn sje styttur enn þá meir. Því að þótt þetta, að mínu áliti, sje bót, að stytta sveitfestistímann um helming, þá hefði hitt verið enn meiri bót, að færa tímann niður í tvö ár. En jeg vildi ekki verða til þess, að kljúfa nefndina og sætti mig við 5 ára tímann eftir atvikum, eins og háttv. Ed. hefir lagt til. Það er líklegt, að fleiri verði til að vinna sjer sveit með 5 ára dvöl en 10, því að jeg er ekki viss um, að hreppsnefndir eigi eins hægt með að böla fátæklingum burt á 4. árinu eins og á 9. árinu, og hægara er að fá byggingarráð á koti í 5 ár en í 10 ár. Það er einnig sjaldan svo auðsær þungi af mönnum eftir 4 ára dvöl eins og eftir 9 ára dvöl, og ætti því þetta ákvæði að verða til þess, að hreppsnefndir beittu sjer síður gagnvart þeim, sem þær beita sjer nú gegn, eftir 9 ára dvöl. Með þessu ákvæði verður fæðingarhreppurinn ekki eins hart úti, en það verð jeg að telja óeðlilegt, að fæðingarhreppurinn verði aðalframfærsluhreppurinn. Með því móti færi svo, að á hreppum, sem mikið útstreymi er úr, lentu byrðar af mönnum, og væru þeir hreppar þó venjulega verr settir með að þola byrðarnar, af því að þeir hafa mist fólkið frá sjer.

Þar á móti hefir nefndin ekki fallist á það ákvæði Ed., að menn skyldu eiga þar sveit, sem þeir hefðu dvalið lengst. Það ákvæði telur nefndin óheppilegt og óviðeigandi. Í fyrsta lagi af því, að ekki er þar með dregið úr hrakningi fátæklinganna. Í annan stað, ef miða á sveitfestina við það gagn, sem menn hafa unnið í sveitarfjelögunum, þá næst það ekki með þessu ákvæði. Ef þessari reglu væri fylgt út í ytstu æsar, þá ætti að skifta byrðinni á sveitarfjelögin eftir því, hve maðurinn hefir dvalið lengi í hverjum stað. Yfir höfuð álítur nefndin, að ákvæði þetta leiði til mikilla vafninga, og erfitt verði að finna, hvar maðurinn hefir dvalið lengst. Svo hún er mótfallin þessum ákvæðum frv.

Jeg játa það, að þetta sveitfestismál er hið mesta vandamál. Það væri ef vill fegurst, að alt landið væri eitt framfærslufjelag, og að allir hreppar gyldu í einn sjóð; með því fyrirkomulagi væri girt fyrir hrakninga á fátæklingum; þeir fengju að vera þar, sem þeir vildu, svo að segja. En á móti því fyrirkomulagi mælir það, að alt, sem landið kostar, reynist dýrara en það, sem einstakir menn eða fjelög eiga að kosta. Þá er ekki eins eytt í ógegnd, eins og þegar heimta á gjaldið af landssjóði, svo sem allir vita. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara langt út í málið.

Minni hlutinn er algjörlega andvígur skoðun meiri hluta nefndarinnar. Minni hlutinn vill, að sveitfestistíminn sje sem lengstur; en það yrði til þess, að fæst fólk gæti unnið sjer sveit, heldur mundi lenda á fæðingarhreppnum, enda álítur minni hlutinn, að það eigi að skapa framfærsluskylduna. Það, sem ber á milli, er því það, hvort færa eigi sveitfestistímann niður úr 10 árum, eins og nú er hann, eða eigi.

Skal jeg svo eigi fjölyrða meira um málið, en legg á vald háttv. deildar, hvernig hún lítur á það.